Barátta tveggja bestu leikmanna deildarinnar
Bryndís Guðmunds mætir aftur á parketið
Heil umferð fer fram í Domino's deild kvenna í körfubolta í kvöld. Þar eru Suðurnesjaliðin, Grindavík og Keflavík, í eldlínunni en bæði lið eiga heimaleik. Keflvíkingar taka á móti Lele Hardy og Haukum, þar sem líklega tveir bestu erlendu leikmenn deildarinnar etja kappi, en Carmen Tyson-Thomas og Hardy leiða deildina í stigum og framlagi. Eins mun Bryndís Guðmundsdóttir mæta aftur til leiks hjá Keflavík eftir langa fjarveru. Keflvíkingar eru í öðru sæti deildarinnar og Haukar í því þriðja, því er um spennandi toppslag að ræða.
Grindvíkingar fá botnlið Blika í heimsókn í Röstina. Grindvíkingar hafa verið á góðu skriði, unnið síðustu þrjá leiki sína og klifrað upp töfluna. Grindvíkingar tefla fram nýjum erlendum leikmanni í kvöld, en sú heitir Kristina King. Leikirnir hefjast klukkan 19:15.
Keflavík-Haukar í TM-höllinni · Sýndur beint á SportTV.is
Snæfell-KR í Stykkishólmi
Grindavík-Breiðablik í Grindavík
Hamar-Valur í Hveragerði · Sýndur beint á Hamarsport.is
Allir leikir í beinni tölfræðilýsingu á kki.is.