Barátta til síðasta blóðdropa
Lokaspretturinn í karlakörfunni
Senn fer að líða að úrslitakeppni í körfuboltanum. Suðurnesjaliðin standa misvel að vígi eins og staðan er núna hjá körlunum í Domino’s deildinni. Keflvíkingar virðast ætla að halda öðru sætinu á meðan Njarðvíkingar geta endað allt frá sjöunda sæti til þess annars. Grindvíkingar munu þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum í úrslitakeppninni.
Grindvíkingar eru í mikilli baráttu um áttunda sætið sem er síðasta sætið inn í úrslitakeppnina. Grindvíkingar sem eru í áttunda sætinu, eiga erfiða leiki framundan. Þeir leika gegn KR á útivelli á fimmtudaginn n.k.. Þeir fá svo Hauka í heimsókn áður en haldið er norður og leikið gegn Stólunum. Í síðustu umferð mætast svo grannarnir Grindavík og Njarðvík í Mustad höllinni.
Njarðvíkingar eiga nokkuð strembið verkefni fyrir höndum en næstu þrír andstæðingar þeirra eru allir ofar í töflunni en þeir grænu. Þeir fá Stjörnuna í heimsókn í vikunni en spila gegn Þórsurum í næsta leik í Þorlákshöfn. Haukar mæta svo í Ljónagryfjuna áður en grannaslagurinn gegn Grindavík verður háður í síðustu umferðinni.
Keflvíkingar sem eru í öðru sæti eiga líklega auðveldustu leikina eftir af Suðurnesjaliðunum. Þeir eftir að mæta Tindastólsmönnum á heimavelli sínum. FSU er næsti andstæðingur og það á útivelli. Síðan er það heimaleikur gegn ÍR og loks heimsækja Keflvíkingar Stjörnuna heim í Ásgarð í lokaumferðinni.
Deildarkeppni lýkur þann 10. mars og hefst úrslitakeppni viku síðar, eða þann 17. mars.
Eins og staðan er núna þá lítur fyrsta umferð svona út:
KR-Grindavík
Keflavík-Tindastóll
Stjarnan-Njarðvík
Haukar-Þór Þ.