Bandaríkjamaður til reynslu hjá Grindavík
Körfuknattleikslið Grindvíkinga hefur nú til reynslu bandarískan leikmann að nafni Stan Blackmon. Blackmon er 25 ára, 1.98m á hæð og leikur stöðu framherja. Morgunblaðið hefur eftir Friðriki Inga, þjálfara Grindavíkur, að leikmaðurinn yrði hjá liðinu næstu daga en ekki yrði samið við hann nema hann stæði undir væntingum.
Á ýmsu hefur gengið síðan Grindvíkingar ákváðu að skipta Daniel Trammel út og fá sér annan Bandaríkjamann fyrir lokaátökin í deildinni. Derrick Stroud var kominn langleiðina up í flugvélina hingað til lands og búið var að ganga frá öllum lausum endum í sambandi við komu hans þegar honum snerist hugur og fór frekar til Ungverjalands þar sem hann hefur gert góða hluti síðan. Þá lék Timothy Szatko einn leik með liðinu, en var látinn fara þar sem hann stóð sig ekki vel.
Grindavík vann alla leiki sína í Intersport-deildinni fyrir áramót en hafa tapað tveimur af þremur deildarleikjum sínum eftir að Trammel var látinn fara.