Baldur: Þetta var helvíti sárt
Keflavík og Valur gerðu 2-2 jafntefli í Landsbankadeild karla í knattspyrnu í gær og eftir leikinn eru Keflvíkingar í 3. sæti deildarinnar með 8 stig eftir 5 leiki. Baldur Sigurðsson gerði annað mark Keflavíkur í leiknum og lagði upp fyrsta markið sem Þórarinn Brynjar Kristjánsson gerði á 5. mínútu leiksins. Baldur segir jafnteflið hafa verið sárt og að Keflavík hafi haft lítið sjálfstraust fram á við í síðari hálfleik.
„Mér fannst við verðskulda þrjú stig því við vorum komnir í 2-0 í fyrri hálfleik. Valsmenn áttu svo síðari hálfleikinn,“ sagði Baldur. „Þetta var okkur að kenna að missa þetta í jafntefli, við áttum ekki að bakka svona aftarlega og við verðum að fara að klára þessa leiki ef við ætlum okkur í toppinn en ekki vera alltaf í þessu 4. sæti. Það var helvíti sárt að missa þetta niður.“
Næsti leikur Keflavíkurliðsins í Landsbankadeildinni er gegn Fram á fimmtudag og segir Baldur að um skyldusigur sé að ræða. „Það skiptir í reynd ekki máli um hvaða lið ræðir, allir leikir eru skyldusigrar hjá okkur ef við ætlum okkur í toppinn, það er ekkert flóknara en það,“ sagði Baldur.
Kenneth Gustafsson lék sinn fyrsta leik með Keflavík í gær eftir erfið meiðsli og mun hann vafalítið styrkja liðið til muna en Guðmundur Viðar Mete lék ekki með í gær.
VF-mynd/ Valur Jónatansson