Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bakken birnir voru betri
Þriðjudagur 7. desember 2004 kl. 22:46

Bakken birnir voru betri

Keflavík beið lægri hlut fyrir danska liðinu Bakken Bears í Bikarkeppni Evrópu í kvöld. Lokastaðan í Árhúsum var 104-90 en Danirnir leiddu lengst af.

Byrjun leiksins einkenndist af mistökum á báða bóga en Bakken náði forystunni áður en langt um leið. Staðan var 23-20 eftir fyrsta leikhluta en Keflvíkingar komust ufir 30-31 eftir góðan kafla. Í kjölfarið skorðuðu heimamenn 9 stig í röð og um svipað leyti fengu bæði Nick Bradford og Anthony Glover sína þriðju villu, en þeim gekk bölvanlega að eiga við danska risann Chris Christoffersen í vörninni.

Staðan í hálfleik var 56-44 fyrir Bakken en í byrjun 3. leikhluta náðu þeir 20 stiga forskoti og var farið að syrta verulega í álinn fyrir Keflvíkinga.

Það sem eftir lifði leiks náðu gestirnir frá Íslandi aldrei að minnka muninn verulega þrátt fyrir góða spretti, sérstaklega hjá Magnúsi Gunnarssyni sem skoraði alls 27 stig í leiknum, þar af sjö 3ja stiga körfur.

Lokastaðan var, sem fyrr sagði, 104-90, og Bakken Bears hefur því tryggt sér efsta sætið í riðlinum.

„Þeir voru bara betri en við í kvöld. Við verðum að gefa þeim það,“ sagði Sigurður Ingimundarson í leikslok. „Þeir voru að spila virkilega vel og það voru ekki nógu margir að eiga góðan leik hjá okkur.“

Sigurður segir þó engan tíma til að gráta tapið því þeir leggja í ferð til Madeira strax í fyrramálið þar sem þeir spila síðasta leikinn í riðlakeppninni á fimmtudag.

Tölfræði leiksins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024