Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bæði lið Keflavíkur í mikilli fallhættu
Afmælisbarn dagsins, Nacho Heras, hér með gott skot sem fór naumlega framhjá. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 28. ágúst 2023 kl. 09:51

Bæði lið Keflavíkur í mikilli fallhættu

Keflavík og Fram skildu jöfn í markalausum leik í gær þegar liðin mættust í Bestu deild karla í knattspyrnu en Valur vann sigur í Keflavík 4:1 í Bestu deild kvenna. Karlalið Keflvíkur er neðst í deildinni, sjö stigum frá öruggu sæti, en kvennaliðið er næstneðst og vantar aðeins eitt stig til að ná ÍBV.

Valur - Keflavík 4:1

Keflavík mætir Tindastóli í fyrsta leik úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildar kvenna en síðast þegar liðin mættust höfðu norðankonur betur.

Valur byrjaði betur og komst yfir á 22. mínútu en Keflvíkingar fengu víti skömmu síðar eftir að brotið var á Melanie Rendeiro. Anita Lind Daníelsdóttir steig á punktinn og skoraði af öryggi (28').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Valskonur sóttu meira í fyrri hálfleik en Keflvíkingar vörðust vel og staðan var 1:1 í hálfleik þrátt fyrir að bæði lið næðu að skapa sér ágætis færi.

Það tók heimakonur ekki nema fimm mínútur að ná forystu í seinni hálfleik (50') en tuttugu mínútum síðar voru Keflvíkingar nærri því að jafna á nýjan leik þegar markvörður Vals missti boltann inni í markteig en Valskonur náðu að hreinsa frá á síðustu stundu.

Það má alltaf spá hvað jöfnunarmark hefði gert fyrir leikinn en Valur tryggði sér sigurinn með tveimur mörkum undir lok leiks (85' og 89').

Nú er deildarkeppninni lokið í Bestu deild kvenna og Keflavík fær þrjá leiki í úrslitakeppni neðri hlutans til að koma sér úr fallsæti. Keflavík mætir Tindastóli (3/9) og ÍBV (9/9) á útivelli en síðasti leikurinn verður gegn Selfossi á HS Orkuvellinum þann 16. september.

Selfoss situr á botninum með ellefu stig, Keflavík er með sautján, Tindstóll hefur átján stig og ÍBV er með nítján svo það lítur út fyrir spennandi fallbaráttu hjá liðunum.


Keflavík - Fram 0:0

Fyrri hálfleikur Keflavíkur og Fram var frekar tíðindalítill og hvorugt lið náði að sýna hvað í þeim býr. Eftir um hálftíma leik skoraði Dagur Ingi Valsson mark þegar hann náði að skalla boltann aftur fyrir sig eftir útspark frá Mathias Rosenorn. Boltinn fór yfir Ólaf Íshólm Ólafsson, markvörð Framara, sem var staðsettur framarlega og hafnaði í markinu en dómarinn dæmdi brot á Dag. Það var erfitt að sjá á hvað dómarinn dæmdi en Keflvíkingar mótmæltu dómnum ekki mikið.

Dómarinn sá eitthvað athugavert í aðdraganda skallans og dæmdi markið af.

Skömmu síðar voru Framarar nærri því að komast yfir þegar Rosenorn náði að slá til boltans nánast af tánum á Guðmundi Magnússyni en Aron Jóhannsson náði frákastinu og átti skot sem fyrirliðinn Magnús Þór Magnússon bjargaði á línu.

Í seinni hálfleik tóku Keflvíkingar við sér og voru frekar ákveðnari fram á við en gestirnir. Keflavík sótti og munaði oft litlu upp á að klára sóknirnar en það voru Framarar sem voru þó nærri að skora þegar Aron Jóhannsson átti hörkuskot í slá.

Sókn heimamanna þyngdist undir lokin en inn vildi boltinn ekki og fögnuður Fram var mikill þegar blásið var til leiksloka.

Keflavík er neðst í Bestu deild karla með tólf stig, sjö stigum á eftir Fram sem er í þriðja neðsta sæti.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og tók meðfylgjandi myndir sem má sjá neðar á síðunni.

Keflavík - Fram (0:0) | Besta deild karla 27. ágúst 2023