Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Bæði lið hafa verið í basli
Keflvíkingar hafa unnið fjóra leiki og tapað fjórum, þeir sitja í fimmta sæti deildarinnar. Grindvíkingar eru í 10. sæti með fjögur stig líkt og Fjölnir sem sitja í fallsæti
Fimmtudagur 4. desember 2014 kl. 12:00

Bæði lið hafa verið í basli

Keflavík og Grindavík berjast í Domino’s deild karla í kvöld

Keflvíkingar taka á móti Grindvíkingum í Domino’s deild karla í körfubolta í kvöld. Bæði lið hafa verið í basli að undanförnu og glímt við meiðsli lykilmanna. Þá sérstaklega Grindvíkingar sem hafa aðeins unnið tvo leiki á tímabilinu og hafa þurft að skipta um erlenda leikmenn, leikmenn hafa verið í banni og svo eru mikilvægir leikmenn frá vegna meiðsla.

„Það búið að ganga illa og reynt á okkur sem hóp. Við höldum þó ótrauðir áfram enda enginn uppgjafartónn í okkur. Við höfum átt mikilli velgengni að fagna undanfarin ár og því er erfitt að vera í þessari stöðu, neðarlega og í tómu basli,“ segir Sverrir Þór, þjálfari Grindvíkinga. Sverrir vonast til þess að Kanavandræðin séu að baki og að Jóhann Árni komi aftur til leiks fljótlega eftir áramót. Sverrir telur að ekki sé víst að Þorleifur Ólafsson verði nokkuð með á þessu tímabili sökum meiðsla, en það er sannarlega skarð fyrir skildi fyrir Grindvíkinga. Þeir hafa ekki unnið í deildinni síðan 30. október og hafa tapað fjórum leikjum í röð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sverrir er spenntur fyrir því að fara til Keflavíkur í alvöru Suðurnesjaslag. „Þeir eru líka búnir að vera í meiðslaveseni en það er búið að ganga betur hjá þeim en okkur. Eftir tap gegn Fjölni og með Sigurð Ingimundarson í brúnni, þá býst ég við að þeir komi brjálaðir í leikinn. Þetta er bara mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið,“ segir Sverrir.

Sigurður er aftur tekinn við stjórnartaumunum hjá karlaliði Keflavíkur eftir að Helgi Jónas Guðfinnsson þurfti að hætta sökum veikinda. „Maður er auðvitað Keflvíkingur og hoppar til þegar hjálpa þarf til, þannig leit ég á málið. Það var leiðinlegt að þetta kom upp en það þurfti að bregðast fljótt við málunum,“ segir Sigurður.
Sigurður tók sér frí frá þjálfun meistaraflokks um tíma en staðan er núna sú að hann þjálfar bæði lið Keflavíkur, karla og kvenna. „Ég tók mér aðeins pásu en hef alltaf haft hug á því að vera í þessu á fullu. Því er hvergi nærri lokið því sem ég ætla mér að gera og ég er langt frá því að vera hættur.“ Sigurður þvertekur fyrir að leiði hafi verið kominn í hann. „Það er oft gott að staldra við og skoða aðra og nýja hluti, það hafa allir gott af því.“

Sigurður segir að ungir leikmenn séu að koma inn úr yngri flokkum en fáliðað hefur verið í meistaraflokknum. Hvorki Damon Johnson né Arnar Freyr Jónsson eru væntanlegir fyrr en eftir áramót. Sigurður segir að það sé undir ungu leikmönnunum komið hvernig þeir nýti tækifærið í fjarveru þessara reynslumiklu manna.

Enduruppbygging í karlaboltanum í Keflavík

Sigurður segir það í raun ekkert launungamál að nú sé komið að enduruppbygginu í karlaboltanum í Keflavík. „Við erum aðeins byrjaðir á því og nú er ágætur tími til þess að vinna í því. Við höfum verið í smá basli og það mun taka einhvern tíma, en verður bara skemmtilegt. Það hefur alls ekki gengið eins vel í karlaflokkunum eins og hjá stelpunum. Það er alveg klárt mál að við verðum að fá fleiri stráka héðan sem verða alvöru þátttakendur í þessu. Með mikilli vinnu þá er bjart framundan,“ segir Sigurður brattur.

Leikurinn í kvöld er báðum liðum talsvert mikilvægur og ljóst að hart verður barist. „Þetta verður áhugaverður leikur skal ég segja þér. Bæði lið eru í stöðu sem hvorugt þeirra þekkir miðað við undanfarin ár. Bæði byrja brösuglega og það vantar lykilmenn hjá báðum. Þetta verður fróðlegt og alveg þess virði að fylla húsið. Þetta eru bæði lið sem eru mjög ósátt við að vera ekki að vinna alla leiki þannig að ekkert verður gefið eftir,“ segir þjálfarinn. Keflvíkingar hafa tapað tveimur síðustu leikjum sínum í deildinni.