Bæði Keflavíkurliðin gerðu jafntefli
Keflavík lék útileiki í Lengjudeildum karla og kvenna í knattspyrnu í kvöld, stelpurnar fóru í Mosfellsbæinn á meðan strákarnir skutust austur á Reyðarfjörð.
Keflavíkurstelpur detta niður í annað sæti
Fyrir leiki kvöldsins sat kvennalið Keflavíkur á toppi Lengjudeildarinnar á betra markahlutfalli en Tindastóll. Leikurinn í kvöld byrjaði ágætlega hjá Keflavík en Dröfn Einarsdóttir skoraði á 4. mínútu þegar hún komst inn í sendingu hjá Aftureldingu.
Keflavík hélt áfram að sækja en eftir því sem leið á fyrri hálfleik komst Afturelding meira inn í leikinn og skömmu fyrir leikhlé náðu þær jöfnunarmarki (43'). Staðan 1:1 í hálfleik.
Seinni hálfleikur einkenndist af mikilli hörku. Keflavík skapaði sér nokkur góð færi og bæði Dröfn og Natasha hefðu hæglega getað bætt við mörkum fyrir Keflvíkinga en fleiri urðu mörkin ekki og jafntefli niðurstaðan.
Á meðan Keflavík náði aðeins jafntefli sigraði Tindastóll Fjölni 7:0 og hafði sætaskipti við Keflavík á toppnum.
Með marki sínu í kvöld komst Dröfn Einarsdóttir einu marki fram úr Natasha og er markahæst í deildinni með sex mörk.
Strákarnir jöfnuðu í uppbótartíma
Í Lengjudeild karla sátu Keflvíkingar í öðru sæti, einu stigi á eftir ÍBV, fyrir leiki kvöldsins.
Keflvíkingar mættu í Fjarðabyggðahöllina á Reyðarfirði þar sem lið Leiknis Fáskrúðsfirði leikur sína heimaleiki. Það voru heimamenn sem voru betri framan af leiknum en Keflvíkingar komust í nokkur góð færi þar sem markvörður Leiknis sýndi góðar vörslur og lokaði markinu.
Leiknismenn skoruðu gott mark á 38. mínútu sem Sindri í marki Keflavíkur átti ekki séns í. Staðan í hálfleik 1:0 fyrir heimamenn.
Keflvíkingar höfðu verið á hælunum í fyrri hálfleik en mættu öllu hressari í þann síðari. Þeir voru við stjórnvölinn án þess að brjóta niður varnarmúra Leiknis. Markvörður þeirra hélt áfram að loka marki Leiknis og varði nokkrum sinnum mjög vel.
Þegar leit út fyrir að leiktíminn væri að fjara út kom fyrirliðinn, Frans Elvarsson, boltanum loks í net heimamanna eftir hornspyrnu á 5. mínútu uppbótartíma. Skömmu síðar fengu þeir tækifæri til að stela sigrinum þegar aukaspyrna Adams Ægis fór yfir markið en lokatölur 1:1 og Keflvíkingar sitja áfram í öðru sæti deildarinnar.
Með jafnteflinu missa strákarnir í Keflavík af gullnu tækifæri til að tylla sér á topp Lengjudeildar karla því ÍBV missteig sig einnig í kvöld og gerði 3:3 jafntefli við Vestra á Ísafirði.