Bað um að fá að dæma fyrsta leikinn með pabba
„Þetta gekk ótrúlega vel og var svakalega gaman. Hörkuleikur og allir voru að einbeita sér að því að leika körfubolta og við fengum frábæran leik með flottum stuðningsmönnum,“ sagði Ísak Ernir Kristinsson sem dæmdi sinn fyrsta leik í úrvalsdeild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar að Þór Þorlákshöfn og Valur áttust við. Ekki nóg með það að Ísak sem er 18 ára hafi dæmt sinn fyrsta leik í úrvalsdeild karla þá dæmdi hann leikinn með Kristni Óskarssyni föður sínum sem á að baki 560 leiki í Úrvalsdeild og eru leikir sem Kristinn hefur dæmt á vegum KKÍ komnir vel yfir þúsund talsins.
Ísak hefur dæmt 187 leiki á vegum KKÍ og í fyrra steig hann sín fyrstu skref í dómgæslu í úrvalsdeild kvenna. Einnig hefur Ísak dæmt í bikarkeppni karla en í kvöld var frumraun hans í úrvalsdeildinni eins og áður segir. „Þann fiðring sem ég fann í maganum í dag hef ég ekki fengið í langan tíma og þetta er alltaf visst kikk,“ sagði Ísak.
„Það var engin tilviljun sem réð því að við feðgar skildum dæma saman fyrsta leikinn minn í úrvalsdeild. Ég bað sjálfur um að ég fengi að dæma fyrsta leikinn minn með pabba,“ en þeir feðgar hafa þó dæmt töluvert mikið saman og þekkja vel inná hvorn annan. „Við höfum dæmt um 20 leiki saman á vegum KKÍ og eitthvað meira í gegnum tíðina,“ segir Ísak en hann hefur alltaf verið mjög áhugasamur um dómgæslu og stúderað hana frá því hann var um gutti. „Ég fór oft á leiki til þess eins að fylgjast með dómurunum, frekar en leikmönnum,“ en Ísak æfir körfubolta með Keflavík enda er hann á því að maður verði að spila leikinn til þess að skilja hann til hins ítrasta.
Á leiknum í gærkvöldi voru dómarar að fylgjast með Ísaki og honum var hrósað eftir leikinn í Þorlákshöfn í kvöld. „Leikurinn gekk vel og engin stór atriði sem komu upp og ekkert í dómgæslunni sem réði úrslitum.“ Ísak er ánægður með tímabilið hjá sér hingað til en hann hefur fengið að takast á við mörg stór verkefni og þau eru fleiri framundan hjá þessum efnilega dómara en hann er m.a. á leið á Norðurlandamót unglinga sem fram fer í vor. Ísak setur markið hátt en hann ætlar sér að reyna að fylla í skó föður síns en það er sannarlega verðugt verkefni. „Einhvern tímann sagði ég að ég ætlaði mér að slá þau met sem pabbi hefur sett en hann á orðið öll met þegar talað er um flesta leiki af einhverju tagi. Það gæti reynst erfitt en það gæti verið gaman. Ég er allavega yngri en hann var þegar hann dæmdi sinn fyrsta leik í úrvalsdeild karla,“ sagði Ísak kátur að lokum.
Mynd Steinþóra Eir