Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Aukin áhersla á yngri flokka
Laugardagur 8. maí 2004 kl. 19:49

Aukin áhersla á yngri flokka

Keflavík endurnýjaði á fimmtudag samninga við Gunnar Magnús Jónsson, sem er yfirþjálfari yngri flokka Keflavíkur, og Elís Kristjánsson, yfirþjálfara stúlknaflokkanna. Sú nýbreytni er í þessum samningum að um fullar stöður er að ræða og Elís mun einnig vera aðstoðarmaður Gunnars. Báðir hafa talsverða menntun í þjálfun og er Keflvíkingum mikill akkur í starfskröftum þeirra.

Þá var Ólafur Pétursson ráðinn sem markmannaþjálfari yngri flokka og Einar Einarsson mun sjá um þjálfum 3. og 8. flokks.

Þessar ráðningar eru liður í aukinni áherslu á starf yngri flokka innan félagsins þar sem sett verða skýr markmið og stefnt að bættum árangri á næstu árum.

Gunnar Magnús sagðist í samtali við Víkurfréttir vera spenntur fyrir framhaldinu og segir að nú verði loks hægt að sinna einstaklingunum betur og jafnframt farið út í markvissari afreksþjálfun.
„Við erum bjartsýnir á fyrir næstu ár. Það er mjög duglegt og gott fólk í foreldrafélaginu og stjórninni og nú verður vonandi hægt að koma á meiri stöðugleika í starfinu, en það er búið að vera svolítið los á því undanfarin ár í þjálfaramálum og öðru.“

Gunnar bætti því einnig við að á næstunni sé einnig stefnt að þvi að efla starf stúlknaflokkanna og fjölga iðkendum umtalsvert.

Þá var einnig tilkynnt formannsskipti í barna- og unglingaráði þar sem Ingólfur Karlsson fer frá og Smári Helgason tekur við. Ingólfur mun þó halda áfram að vinna að ákveðnum sérverkefnum fyrir knattspyrnudeildina.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024