Aukaæfingin skapar meistarann
-Thelma Dís Ágústsdóttir var valin íþróttakona Reykjanesbæjar 2017
„Það er ótrúlega gaman að fá viðurkenningar þegar maður er búinn að standa sig vel,“ segir körfuboltakonan Thelma Dís Ágústsdóttir, en hún var valin íþróttakona Reykjanesbæjar 2017 eftir frábært ár.
Thelma er einn af lykilmönnum meistaraflokks Keflavíkur en hún varð meðal annars Íslands- og bikarmeistari með flokknum á liðnu ári. Þá var hún einnig valin besti leikmaður deildarinnar á lokahófi KKÍ og körfuknattleikskona Keflavíkur. Thelma var í hópi A-landsliðsins í öllum tilfellum á liðnu ári og hefur nú leikið níu landsleiki.
„Ég hef alltaf haft góða þjálfara, alltaf mætt vel á æfingar og æft aukalega. Ef metnaðurinn er til staðar og markmiðin eru skýr er allt hægt,“ svarar Thelma þegar hún er spurð hver lykillinn að svona góðum árangri sé.
Hún segist alltaf hlakka til að fara á æfingar með Keflavík því þær séu svo skemmtilegar, en alveg frá því hún var lítil hefur íþróttin heillað hana. „Mamma var í körfubolta svo ég hef í rauninni alist svolítið upp í kringum íþróttina. Það var því aldrei spurning hvort ég byrjaði að æfa körfubolta þó ég hafi gaman að flestum öðrum íþróttum,“ segir Thelma, en móðir hennar er Björg Hafsteinsdóttir, ein af bestu körfuboltakonum í sögu Keflavíkur.
Mæðgurnar Björg og Thelma Dís á Þorrablóti Keflavíkur.
Íslands- og bikarmeistatitlarnir stóðu upp úr á árinu hjá Thelmu en þeir voru fyrstu stóru titlarnir hjá henni og flestum stelpunum í liðinu. Sætasti sigur ársins segir Thelma þó hafa verið leikur fjögur á móti Snæfelli þegar Keflvíkingar unnu Íslandsmeistaratitilinn. „Birna var í banni, en hún hafði verið mjög góð í leikjunum á undan og við hinar þurftum að stíga upp, sem við gerðum. Húsið var líka troðfullt sem gerði þetta ennþá skemmtilegra.“
Thelma stefnir á það að halda áfram í körfubolta, hvort sem það verði hér á landi eða erlendis. „Ég hef haft hug á því að fara í skóla í Bandaríkjunum og það kemur í ljós á næstu mánuðum.“