Auga fyrir auga
Njarðvíkingar sópuðu ÍR út úr 8 – liða úrslitum Iceland Express deildarinnar í gær með sigri í Seljaskóla 76 – 78. Hið sama var uppi á teningnum í fyrra en þá voru það ÍR – ingar sem sópuðu Njarðvíkingum inn í sumarið og því er óhætt að segja að auga hafi komið fyrir auga í viðureignum liðanna í úrslitakeppninni.
Egill Jónasson reyndist hetja Njarðvíkinga í gær er hann tróð sigurstigunum yfir tvo varnamenn ÍR og ætlaði allt um koll að keyra í fagnaðarlátum Njarðvíkinga.
Njarðvíkingar hófu leikinn af krafti og leiddu að loknum 1. leikhluta 16 – 24 en heimamenn náðu að minnka muninn í 1 stig fyrir leikhlé, 39 – 40, og var Ómar Sævarsson þar fremstur í flokki ÍR en hann gerði 23 stig í leiknum og tók 10 fráköst.
Síðari hálfleikurinn var spennuþrunginn og komust ÍR – ingar nokkrum sinnum yfir í leiknum. Miklu munaði fyrir ÍR að Theo Dixon og Ólafur Sigurðsson þurftu báðir frá að víkja með 5 villur. Guðmundur Jónsson fékk 5 villur í liði Njarðvíkur en bæði lið gáfu ekki tommu eftir og þegar um 20 sekúndur voru til leiksloka var staðan jöfn, 76 – 76. Njarðvíkingar eiga sókn, boltinn berst inn í teig, Egill Jónasson tekur skot en það geigar, Egill rýkur þá á sitt eigið frákast og treður knettinum af krafti yfir tvo varnarmenn ÍR eins og sést á meðfylgjandi mynd hér að neðan.
Eftir körfu Egils voru 0,84 sekúndur eftir af leikklukkunni, ÍR – ingar áttu þá innkast á miðjum vellinum og tók Fannar Helgason þriggja stiga skot sem rétt geigaði og leikurinn allur.
Njarðvíkingar fögnuðu innilega og eru komnir áfram í undanúrslit Íslandsmótsins. Halldór Karlsson hefur nú tekið út tveggja leikja bann og verður löglegur með Njarðvíkurliðinu strax í undanúrslitum.
Tölfræði leiksins
Smellið hér til að skoða myndasafn frá leiknum
VF – myndir/ JBÓ, [email protected]
Egill Jónasson gerir sigurkörfuna í gær