Auðvelt hjá Grindavík
Grindvíkingar unnu Breiðablik með þremur mörkum gegn engu í sjöttu umferð Landssímadeildarinnar í dag, en leikurinn fór fram í Grindavík.Heimamenn hófu leikinn af krafti og skoruðu tvö mörk á fyrstu sjö mínútum leiksins, en það var Júgóslavinn, Sinisha Kekic sem skoraði þau. Þriðja markið bættist við á 35. mínútu, þegar Óli Stefán Flóventsson skoraði.Grindvíkingar léku mjög vel í leiknum, unnu vel saman og hefðu í raun átt að vinna mun stærra. Fátt bar til tíðinda í síðari hálfleik þar til á 73. mínútu, þegar markaskorarinn Sinisha Kekic fékk gult spjald fyrir leikaraskap og rautt spjald í kjölfarið þar sem þetta var hans annað gula spjald í leiknum. Blikarnir efldust við brottrekstur Kekic, en náðu ekki að skapa sér hættuleg marktækifæri.Með sigrinum komust Grindvíkingar í þriðja sæti deildarinnar, með 12 stig, líkt og Fylkismenn sem eru með betra markahlutfall. Síðasti leikur umferðarinnar fer fram á Laugardalsvelli nk. mánudag, en þá eigast við Fram og Keflavík.