Auðveldur sigur Njarðvíkur
Njarðvík vann ÍR í Intersport-deildinni í kvöld 102-73. Eins og tölurnar segja til um var sigur Njarðvíkur í Ljónagryfjunni sannfærandi og leiddu þeir allan tímann. ÍR liðið var vandlega vængbrotið þar sem lykilmenn eins og Eiríkur Önundarson voru fjarverandi vegna meiðsla og þjálfarinn, Eggert Garðarsson, lá veikur heima.
„Þetta var létt!“, sagði Friðrik Ragnarsson að leik loknum, „Þetta var nánast eins og skylduverkefni fyrir okkur að klára þennan leik. Þá vantaði auðvitað menn en ég gat leyft mörgum af mínum strákum að spila og þeir komu allir mjög vel út úr leiknum. Við héldum líka haus allan tíman og gerðum það sem til þurfti til að klára þennan leik með sóma.“
Stigahæstir Njarðvíkur voru Brandon Woudstra með 22 stig, Friðrik Stefánsson með 19 stig og Guðmundur Jónsson með 15 stig. Einnig átti Egill Jónasson góðan leik í vörninni og varði 8 skot.
Reggie Jessie var stigahæstur ÍR-inga með 22 stig.
Að leik loknum eru Njarðvíkingar enn í toppbaráttunni með 8 stig ásamt öðrum liðum. Grindavík trónir enn á toppnum með 10 stig en eiga leik gegn KR á morgun á sínum heimavelli. ÍR situr hins vegar sem fastast í botnsæti deildarinnar.