Auðveldur Njarðvíkursigur
Njarðvík og Valur mættust í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í gær og fór leikurinn fram í Njarðvík. Heimaliðið hafði betur, 67 - 48 í frekar bragðdaufum leik ef marka má umfjöllun karfan.is.
Óhætt er að segja að fyrsti fjórðungur hafi verið fremur tilþrifalítill því Njarðvík skoraði aðeins átta sig á móti 5 stigum Vals. Í öðrum leikhluta var aðeins meira líf þar sem Njarðvík skoraði 19 stig gegn 17 stigum Vals. Í hálfleik var staðan því 27-22 fyrir Njarðvík.
Í þriðja leikhluta fóru leikmenn örlítið að hressast og hittnin skánaði hjá báðum liðum. Lítið hafi borið á Shantrell Moss í fyrri hálfleik. Hún var öllu sprækari í þeim síðari og raðaði niður körfum.
Í lok síðasta fjórðungs höfðu heimastúlkur sjö stiga forskot 45-38. Þær gerðu síðan út um leikinn í síðasta fjórðungnum þegar þær skoruðu 22 stig á móti 10 stigum Vals.
Shantrell Moss var stigahæst hjá heimastúlkum með 28 stig og fimm stoðsendingar. Harpa Hallgrímsdóttir var grimm í fráköstunum og hirti 11 slík.
Njarðvík er í 5 sæti deildarinnar með 8 stig, næst á eftir Keflavík sem er með 10 stig. Valsstúlkur eru í neðsta sæti.
---
Mynd - Shantrell Moss skoraði 28 stig fyrir Njarðvík.