Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Atvinnumennskan heillar
Laugardagur 21. september 2013 kl. 08:20

Atvinnumennskan heillar

-Segir Anton Freyr Hauksson U17 landsliðsmaður Íslands í fótbolta

Keflvíkingurinn Anton Freyr Hauksson var nýlega valinn til þess að leika fyrir hönd U17 lið karla í fótbolta. Anton er hluti af hóp Íslands sem heldur til Rússlands og leikur þar í undankeppni EM, dagana 21. - 26. september. Anton Freyr er 16 ára miðvörður, en auk þess að leika í vörninni þá leysir hann einnig stöðu miðjumanns. Anton segist spenntur fyrir því að fara til Rússlands en hann vonast eftir því að íslenska liðið nái sem bestum árangri þar.

Anton var ansi liðtækur í hraðaþraut í Skólahreysti á sínum tíma með Heiðarskóla þar sem liðið lenti m.a. í öðru sæti á landinu. Nú hefur Anton hafið nám í FS þar sem hann stundar nám á íþróttafræðibraut og afreksíþróttalínu. „Ég prufaði allt þegar ég var yngri, körfubolta, sund, handbolta en alltaf togaði fótboltinn meira í mig því það er mikill áhugi fyrir fótbolta heima fyrir,“ segir Anton sem er greinilega mikill íþróttamaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Anton segir að Skólahreysti hafi hjálpað honum nokkuð í boltanum. Þar hafi hann tamið sér að æfa aukalega og bætt bæði snerpu og styrk. Anton  er duglegur að æfa aukalega en hann telur þó að alltaf megi leggja meira á sig.

Anton hefur spilað sjö leiki með U17 liði Íslands og af þeim leikjum hefur hann verið fimm sinnum í byrjunarliði. Hann segir góðan anda ríkja í liðinu enda séu þar mikið af fínum strákum. Sumir í liðinu eru þegar komnir á samning hjá liðum í Evrópu og Anton viðurkennir að það heilli óneitanlega að komast í atvinnumennsku. Hann segir að það gæti þó verið erfitt að fara út svo ungur og viðurkennir fúslega að hann myndi eiga erfitt með það að vera fjarri foreldrum sínum. „Ég væri alveg til í það en þyrfti sjálfsagt að hafa mömmu og pabba með, get ekki verið án þeirra,“ segir Anton og hlær.

Anton hefur aðeins fengið smjörþefinn af því að æfa með meistaraflokki Keflvíkinga en hann æfir bæði með 2. og 3. flokki félagsins. Hann er ekkert allt of sáttur með sumarið, enda er hann metnaðarfullur, en liðið hefði viljað ná töluvert betri árangri. Keflvíkingar náðu 4. sæti í A-riðli í 3. flokki og komust í undanúrslit í bikarkeppni. Hjá 2. flokki er útlit fyrir að 3. sæti verði raunin í B-riðli. Það verður forvitnilegt að fylgjast með Antoni og félögum í landsliðinu í Rússlandi á næstunni.