Átta mörk í nágrannajafntefli UMFN og Reynis
Mikið fjör í skemmtilegum lokaleik félaganna í 2. deildinni á Njarðtaksvellinum í Njarðvík.
Það var markaveisla í lokaleik Suðurnesjaliðanna í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Nágrannaslagur af bestu gerð þegar Njarðvík fékk Sandgerðinga i heimsókn. Lokatölur urðu 4-4 og liðin skoruðu síðustu mörkin í uppbótartíma. Sannkallað fjör á Njarðvíkurvelli í dag.
Sandgerðingar áttu flotta byrjun í leiknum þegar Hannes K. Kristinsson skoraði glæsilegt mark á 2. mínútu. Njarðvíkingurinn Þórður Rúnar Friðjónsson jafnaði leikinn fyrir heimamenn á 20. mínútu og aðeins mínútu síðar kom Theodór Guðni Halldórsson Njarðvík yfir 2-1. Markafjörið í fyrri hálfleik var ekki lokið því Birkir Freyr Sigurðsson jafnaði fyrir Reynismenn á markamínútunni, þeirri 43.
Guðmundur Steinarsson, markahrókur og aðstoðarþjálfari UMFN kom sínum mönnum yfir á nýjan leik með góðu marki á 70. mínútu en Pétur Þór Jaidee jafnaði fyrir Reyni þremur mínútum síðar. Fyrstu þrjú mörk Reynis voru öll af dýrari tegundinni, mörk utan af velli, virkilega glæsileg. Þegar leiktíminn tifaði út var allt útlit fyrir 3-3 jafntefli aen aðeins mínútu síðar skoraði Theodór Guðni Halldórsson fyrir heimamenn sem virtust vera að innsigla sigurinn og mátti heyra bölv og ragn í varamannaskýli Reynismanna. Þjálfari þeirra, Atli Eðvaldsson kallaði á sína menn og hvatti þá áfram. Boltinn barst stuttu síðar inn í teig þar sem Aron Örn Reynisson kom honum inn fyrir marklínuna og jafnaði eftir að boltinn hafði fyrst endaði í stöng Njarðvíkurmarksins. Ótrúlegar lokatölur 4-4 í skemmtilegum leik.
Báðir þjálfarar voru ósáttir að hirða ekki öll stigin og sérstaklega Njarðvíkingar sem voru náðu forystu þrisvar sinnum í leiknum. „Já, ég hefði viljað klára með sigri en kannski er 6. sætið ásættanlegt. Við byrjuðum mjög illa en náðum frábærum árangri í seinni umferðinni. Þetta var þriðja árið mitt með Njarðvíkurliðið og nú er komið gott og tími fyrir næsta mann,“ sagði Gunnar Magnús.
Guðmundur Steinarsson aðstoðarþjálfari sagði að 2. deildin hefði komið honum á óvart hvað varð gæði knattspyrnunnar og enn meira hefði það komið honum á óvart hvað Njarðvíkurklúbburinn væri vel rekinn og vel staðið að málum. Hann sagðist verða áfram hjá Njarðvík en sagðist ekki á þessari stundu geta sagt með hvaða hætti, hvort hann yrði á vellinum eða bara við þjálfun.
Atli Eðvaldsson, þjálfari Reynis sagði tímabilið hafa verið skemmtilegt. Margir ungir strákar hefðu leikið vel og ættu framtíðina fyrir sér. Því miður væru þeir ekki nógu margir frá Suðurnesjum en hann vonaðist þó til að þeir yrðu einhverjir áfram hjá félaginu.
Hér í þessu myndskeiði má sjá tvö síðustu mörkin í leiknum.
-
-