Átta mörk í jafntefli UMFG og Keflavíkur
„Þessi leikur hlýtur að hafa mælst á jarðskjálftamælum. Lætin voru þannig og við sem vorum þarna vissum ekki hvað var að gerast. Hvenær var síðast skoruð sex mörk á tuttugu og fimm mínútum,“ sagði Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari Keflvíkinga en Grindavík og Keflavík gerðu jafntefli í mögnuðum nágrannaslag í Grindavík í Lengjudeildinni í knattspyrnu, þar sem bæði lið skoruðu fjögur mörk. Eftir um tuttugu og fimm mínútur var búið að skora sex mörk. Þjálfari Keflvíkinga og fyrirliði Grindvíkinga sögðust báðir ekki hafa upplifað annað eins í fótboltaleik. Skemmtileg viðtöl við þá eru væntanleg á vf.is.
Keflvíkingar opnuðu leikinn með marki á 2. mínútu en þar var að verki Joey Gibbs eftir góða sendingu frá Rúnari Þór Sigurgeirssyni. Heimamenn voru fljótir að svara fyrir sig og jöfnuðu á 10. mínútu með skallamarki Sigurðar Bjarts Hallsonar. Keflvíkingar komust í forystu aftur með góðu marki Davíðs Snæs Jóhannssonar á 14. mínútu. Hann fékk boltann rétt við marklínuna eftir aukaspyrnu Rúnars. Fimm mínútum jöfnuðu heimamenn þegar Sigurður skoraði sitt annað mark eftir að hafa fengið boltann utanlega í teignum eftir hornspyrnu. Þrátt fyrir fjögur mörk á tuttugu mínútum var leikurinn rétt byrjaður því Grindvíkingar komust í 3:2 þegar Oddur Ingi Bjarnason skoraði glæsilegt mark. Fjórða mark heimamanna kom á 25. mínútu en þá skoraði Josip Zeba eftir hornspyrnu. Boltinn hafði skoppað á milli manna í teignum en endaði svo í marki Keflavíkur, 4:2. Hálfleikurinn var ekki búinn hvað markaskorun varðar því Helgi Þór Jónsson skoraði á 38. mínútu og minnkaði muninn í 4:3 rétt fyrir leikhlé.
Í síðari hálfleik var minna fjör og færri marktækifæri en lokamarkið í leiknum og jöfnunarmark Keflvíkinga kom eftir darraðadans í markteig Grindavíkinga eftir hornspyrnu gestanna. Joey Gibbs fékk heiðurinn af því að kom boltanum yfir marklínuna og heimamenn trúðu ekki eigin augum, að fá á sig jöfnunarmark þegar 6 mínútur voru til leiksloka.
Þetta urðu lokatölurnar í einum svakalegasta leik sem farið hefur fram á Suðurnesjum síðustu ár. Hvorugt liðið ánægt með jafntefli en það er erfitt að meta liðin eftir þennan leik. Varnirnar voru augljóslega ekki miklar í fyrri hálfleik en að sama skapi meira fjör í sóknarleiknum.
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði UMFG og Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari Keflvíkinga voru báðir óánægðir með varnarleikinn. Þetta var í annað sinn í röð í sumar sem Grindavík tapar niður tveggja marka forskoti og Keflvíkingar hafa einungis fengið eitt stig úr síðustu tveimur leikjum. Ætli þeir sér að komast upp í efstu deild þá mega þeir ekki við því að misstíga sig og það er ljóst að það verður erfitt verkefni fyrir bæði Keflavík og Grindavík að ná því verkefni að komast upp. Það skal einnig sagt að það verður ekki ógerlegt, langt frá því. Bæði lið hafa sýnt ágæta frammistöðu það sem af er sumri og ómögulegt að spá um framhaldið.
Joey Gibbs skorar fyrsta mark leiksins og kemur Keflavík í 0:1. VF-mynd/Guðmundur Sigurðsson.
Sigurður skorar með skalla og jafnar á 10. mínútu fyrir Grindavík. VF-mynd/Guðmundur Sigurðsson.
Davíð Snær Jóhannsson skorar 1:2 fyrir Keflavík. VF-mynd/Guðmundur Sigurðsson.
Sigurður Hallur skorar annað mark sitt og jafnar 2:2. VF-mynd/Guðmundur Sigurðsson.
Oddur Ingi Bjarnason skorar 3:2, kemur heimamönnum yfir í fyrsta sinn.
Grindavík kemst í 4:2. Josip Zeba skoraði eftir hornspyrnu en rétt áður fór boltinn í slána.
Helgi Þór laumar boltanum yfir marklínuna og minnkar muninn í 4:3.
Hér er mynd Guðmundar af marki Helga frá öðru sjónarhorni.
Jöfnunarmark Keflvíkingar var nokkuð magnað. Boltinn fór hátt upp í loft eftir hornspyrnu og barst svo niður í markteiginn og endaði fyrir innan marklínu. Markið er troðið af leikmönnum eins og sjá má á tveimur myndum pket og Guðmundar.