Átak í kynningu á íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi í Reykjanesbæ - Allir með!
Reykjanesbær frumsýndi, miðvikudaginn 3. febrúar, hátt í 30 kynningarmyndbönd sem sýna allt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf sem í boði er fyrir börn sveitarfélagsins. Vinna við myndböndin hófst í september síðastliðnum, en þau eru hluti af viðamiklu samfélagsverkefni sem ber nafnið Allir með! Verkefnið var sett í gang síðastliðið haust og er markmið þess að stuðla að jöfnum tækifærum barna til þess að tilheyra samfélaginu.
„Við erum virkilega ánægð með myndböndin og erum mjög stolt af verkefninu. Við erum að taka allt barnastarf í Reykjanesbæ og kynna það í stuttum myndböndum með líflegri framsetningu. Með þessu erum við að gera starfið mun aðgengilegra og sýnilegra,“ segir Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála Reykjanesbæjar.
Reykjanesbær leggur áherslu á að öll börn fái tækifæri til þátttöku í skipulögðu íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi og er verkefnið Allir með! mikilvægur liður í þessari áherslu bæjarins. Verkefnið stuðlar að því að öllu barnastarfi sé stýrt af jákvæðum og sterkum fullorðnum leiðtogum, sem vinni að vellíðan barnanna með skipulögðum hætti. Reykjanesbær hefur því boðið þjálfurum á hagnýt námskeið til þess að styrkja jákvæð samskipti og stuðla að félagslegri vellíðan barna.
„Við erum að vinna með tvö lykilhugtök í Allir með! Þau eru annarsvegar þátttaka, að öll börn fái jöfn tækifæri til þátttöku í barnastarfi bæjarins, og hinsvegar að tilheyra, að börn fái að vera hluti af hóp og upplifa sig sem hluta af heild. Þess vegna leggjum við afar ríka áherslu á að þjálfa fullorðna fólkið okkar í að vera sterkir leiðtogar sem geta sameinað hóp barna og hjálpað þeim að tilheyra. Við leggjum sérstaka áherslu á að ná til barna af erlendum uppruna og barna sem eru ekki skráð í frístundastarf nú þegar,“ segir Hilma Hólmfríður.
Á vef Reykjanesbæjar má finna sáttmála sem íbúar sveitarfélagsins geta skrifað undir. Sáttmálinn stuðlar að ábyrgð allra samfélagsþegna gagnvart samfélagi þar sem jákvæð samskipti og vellíðan íbúa eru í fyrirrúmi. Með því að efla alla bæjarbúa til að styðja við börn samfélagsins og rækta náungakærleikann er verkefnið sett í stærra samhengi. Bæjarbúar geta skrifað undir samfélagssáttmálann rafrænt á vefsíðu Reykjanesbæjar, en íbúar eru hvattir til að skrifa undir og taka þátt.
Þátttaka barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi hefur minnkað eftir að Covid-19 hófst og vill Reykjanesbær vinna gegn þessu brottfalli og hvetur alla til þess að kynna sér það fjölbreytta barnastarf sem í boði er. Verkefnið er styrkt af félagsmálaráðuneytinu. Myndböndin eru aðgengileg á nýjum frístundavef sveitarfélaganna á Suðurnesjum, fristundir.is, þar sem nánari upplýsingar um allt barnastarf er að finna.
Myndböndin verða vistuð á glænýjum frístundavef allra sveitarfélaga á Suðurnesjum, Frístundir.is þar sem nánari upplýsingar um allt barnastarf er að finna.
ÞAÐ ÞARF HEILT ÞORP TIL AÐ ALA UPP BARN
Verkefnið er styrkt af félagsmálaráðuneytinu.