SSS uppbyggingarsjóður
SSS uppbyggingarsjóður

Íþróttir

Aron Jóhanns frábær í sigri Grindvíkinga
Aron Jóhannsson, fyrirliði Grindvíkinga, sýndi frábæra takta gegn KV í gær. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 24. ágúst 2022 kl. 09:05

Aron Jóhanns frábær í sigri Grindvíkinga

Fyrirliði Grindvíkinga, Aron Jóhannsson, fór fyrir sínum mönnum í gær þegar Grindavík hafði betur gegn KV í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Á sama tíma tapaði Þróttur stórt fyrir Aftureldingu og er þá ljóst að Þróttarar eru fallnir í 2. deild. Víðismenn unnu stórsigur á Vængjum Júpiters í 3. deildinni og eru efstir eftir átján umferðir á betra markahlutfalli en Sindri sem er í öruð sæti. Dalvík/Reynir situr í þriðja sæti, stigi á eftir Víði og Sindra, en þeir eiga leik til góða þar sem leik Dalvíkur/Reynis og Kormáks/Hvatar, sem átti að fara fram á Blönduósvelli, var frestað vegna harmleiksins sem átti sér stað á Blönduósi um síðustu helgi.

KV - Grindavík 1:3

Grindvíkingar áttu ekki góðan fyrri hálfleik og voru alltaf skrefinu á eftir KV. Grindavík fékk þó ekki mark á sig fyrr en rétt undir lok hálfleiksins (42') en það var nóg til að vekja risann. Aron Jóhannsson, sem átti stórleik í gær, jafnaði metin á lokamínútu fyrri hálfleiks með stórglæsilegu marki (45').

Það var allt annað Grindavíkurlið sem mætti til seinni hálfleiks og jöfnunarmarkið kveikti augljóslega á mönnum, það sama verður ekki sagt um leikmenn KV sem voru slegnir út af laginu. Grindvíkingar tóku leikinn yfir og Tómas Leó Ásgeirsson kom þeim yfir snemma í seinni hálfleik eftir sendingu frá fyrirliðanum (51') sem fékk gullið tækifæri skömmu síðar til að skora annað mark sitt en KV bjargaði þá á línu. Dagur Ingi Hammer skoraði svo lokamarkið eftir frábæran undirbúning Símonar Loga Thasapong (59').

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Grindavík hækkaði sig um eitt sæti með sigrinum og situr í níunda sæti deildarinnar.

Dagur Ingi skoraði lokamark Grindvíkinga í gær eftir góðan undirbúning Símonar Loga Thasapong.

Afturelding - Þróttur 4:0

Þrátt fyrir að vera að berjast fyrir tilveru sinni í Lengjudeild mættu Þróttarar illa stemmdir í leikinn gegn Aftureldingu og heimamenn sýndu mikla yfirburði frá fyrstu mínútu. Þróttarar voru yfirspilaðir og tvo mörk Aftureldingar í hvorum hálfleik gerðu út um vonir Þróttar um að ná að bjarga sér frá falli. Einhver uppgjöf virðist hafa verið komin í leikmenn sem lögðu sig ekki fram í leiknum og er Þróttur fallið fyrir vikið þrátt fyrir að fjórar umferðir séu enn eftir í deildinni.

Brynjar Gestsson, þjálfari Þróttar, á ærið verk fyrir höndum ætli Þróttur sér aftur upp í Lengjudeildina.

Víðir - Vængir Júpiters 4:0

Víðismenn áttu ekki í neinum vandræðum með botnlið Vængja Júpiters í 3. deild karla í gær og styrktu stöðu sína í toppbaráttunni. Sindri frá Hornafirði, sem var á toppnum fyrir þessa umferð, missteig sig og náði aðeins jafntefli gegn KFG, við það komst Víðir upp í efsta sætið en liðin eru jöfn að stigum. Ekki hefur verið fundinn tími fyrir leik Kormáks/Hvatar og Dalvíkur/Reynis en Dalvík/Reynir er aðeins einu stigi á eftir Víði og Sindra í þriðja sæti. Geri Dalvík/Reynir jafntefli þá jafna þeir efstu lið að stigum en er með lakara markahlutfall og situr því áfram í þriðja sæti, það verður þó að telja líklegt að þeir fari með sigur á Kormáki/Hvöt og taki efsta sætið.

Mörk Víðis: Ari Steinn Guðmundsson (13'), Atli Freyr Ottesen Pálsson (16'), Ísak John Ævarsson (72') og Ási Þórhallsson (90'+2).