Aron á toppnum
Nú þegar tveim umferðum er lokið á Íslandsmeistaramótinu í mótocrossi leiðir Suðurnesjamaðurinn Aron Ómarsson keppnina með góðu forskoti.
„Ég er búinn að vinna báðar keppnirnar með fullu húsi stiga, þeir sem eru búnir að vera keppa á móti mér eru búnir að vera í smá vandræðum þannig að ég er með nokkuð gott forskot eftir þessar tvær keppnir,“ segir Aron. Núna um næstu helgi fer fram 3. umferð mótsins en alls eru fimm umferðir í mótinu. Keppnin um helgina fer fram á heimabraut Arons í Sólbrekku og hefst hún klukkan tvö á laugardaginn. Aðspurður segist Aron vera vel stemmdur fyrir hana.
„Ég hlakka mikið til, er í fanta formi og mjög vel stemmdur.“
Aron hefur í vetur dvalist erlendis við æfingar og keppni.
„Ég bjó útí Belgíu í hálft ár núna í vetur að æfa og keppa, fór einnig að keppa á Ítalíu og Spáni og kom heim núna í maí,“ segir Aron en hann er fyrirliði landsliðsins í mótocrossi.
„Við erum að fara til Bandaríkjanna núna í september að keppa með landsliðinu þannig að það er nóg framundan.“