Arnór lætur að sér kveða í sænska boltanum
Keflvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason stimplaði sig inn í sænska boltann með því að skora sitt fyrsta mark um helgina sl.. Arnór sem leikur með Norrköping skoraði eftir aðeins 11 sekúndur þegar lið hans tók á móti Djurgarden í sænsku úrvalsdeildinni, en leiknum lauk með 3-5 sigri Djurgarden. Arnór gerði sér lítið fyrir og lagði líka upp mark og var valinn maður leiksins í sínum fyrsta byrjunarliðsleik á heimavelli. Arnór hefur ekki leikið mikið með liðinu en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Arnór lék fyrstu 78 mínúturnar í leiknum en lið hans er nú í 8. sæti með 16 stig eftir 14 leiki. Arnór undirbjó sig afar vel fyrir leikinn og ekki sakaði fyrir hann að fá þessa óskabyrjun. „Það var fínt að fá svona vítamínsprautu í upphafi leiks en ég fann mig vel eftir það,“ segir Arnór hógvær.
Arnór er vongóður um það að finna fyrra form en hann segir það hafa tekið nokkuð á að sitja á hliðarlínunni meiddur. „Það tekur mikið á andlegu hliðina að vera svona meiddur. Ég er með kærustuna með mér og hún er dugleg að stappa í mig stálinu,“ segir Arnór en hann hefur lagt gríðarlega hart að sér og setur mikla pressu á sjálfan sig. Arnór segist finna sig vel í Svíþjóð og deildin þar er að hans mati jöfn og spennandi. „Hér er flott umgjörð í kringum alla leiki og ég get alls ekki kvartað,“ segir miðjumaðurinn sem óðum er að venjast atvinnumannalífinu.
Samúel Þór yngri bróðir Arnórs kom í heimsókn til Norköpping ásamt fjölskyldunni á dögunum. Hann er efnilegur knattspyrnumaður og Arnór kom því í kring að Samúel fékk að æfa með unglingaliði liðsins. „Honum gekk mjög vel, þannig að þeir vita af honum í nánustu framtíð,“ segir Arnór léttur í bragði.