Arnór Ingvi til Norrköping í Svíþjóð
„Ég er mjög sáttur og hlakka til að spila aftur með Norrköping,“ segir Arnór Ingvi Traustason en hann var kynntur sem nýr leikmaður hjá sænska knattspyrnufélaginu Norrköping í gær. Hann átti frábæra tíma hjá félaginu 2014-16 og var lykilmaður hjá liðinu þegar það vann tvöfalt, deild og bikar árið 2015.
Arnór Ingvi lék síðast í Boston í Bandaríkjunum með New England en þangað kom hann 2021 eftir að hafa orðið Svíþjóðarmeistari með Malmö 2020. Þar á undan lék Suðurnesjamaðurinn með AEK í Aþenu í Grikklandi, var hjá Rapid Vín 2016-17 en þangað kom hann frá IFK Nörrköping, þangað sem leið hans liggur aftur.
„Nú er kominn tími til að snúa aftur og gefa til baka. Ég á margar góðar minningar frá veru minni hjá félaginu áður og vonast til að styrkja liðið á nýjan leik.“ segir Arnór Ingvi á heimasíðu félagsins.