Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Arnór Ingvi: „Gæti lítið án liðsfélaganna“
Sunnudagur 29. júlí 2012 kl. 07:00

Arnór Ingvi: „Gæti lítið án liðsfélaganna“

Knattspyrnulið Keflvíkinga í Pepsi-deild karla inniheldur ansi skemmtilega blöndu þetta árið. Liðið er skipað bæði reynsluboltum sem margir hverjir hafa átt glæstan feril í atvinnumennsku, líkt og þeir Jóhann Birnir Guðmundsson og Haraldur Freyr fyrirliði, og svo ungum og efnilegum leikmönnum með takmarkaða reynslu í efstu deild. Einn þessara ungu og upprennandi leikmanna er miðjumaðurinn Arnór Ingvi Traustason en hann hefur skorað fjögur mörk í fyrstu 12 leikjum deildarkeppninnar í ár og er margur knattspyrnuáhugamaðurinn sennilega búinn að leggja nafn hans á minnið.


Arnór segir að velgengni hans væri eflaust ekki mikil ef liðsheildin hjá Keflvíkingum væri ekki jafn sterk og raun ber vitni. „Ég gæti ekki gert mikið án þessara góðu liðsfélaga minna. Það er góð blanda af ungum og reynslumiklum mönnum og þetta hefur verið gaman í sumar,“ sagði Arnór í samtali við Víkurfréttir í vikunni. Arnór segir gengi liðsins hafa verið ágætt hingað til en nú þurfi liðið hins vegar aðeins að stíga upp að hans mati. Honum er greinilega enn í fersku minni ósigur síðasta mánudags en þá þurftu Keflvíkingar að lúta í gras gegn Fylki. „Við þurfum að koma okkur frá neðri hluta deildarinnar og vera frekar í pakkanum sem er að gæla við Evrópusæti, það væri alger draumur.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Á dögunum fór Arnór til reynslu til liðsins Sandnes Ulf í Noregi sem leikur efstu deild þar ytra og áður hefur hann farið til reynslu hjá enska félaginu West Brom Albion.


„Þjálfarinn var mjög ánægður með okkur og hefur sett sig í samband við Keflavík. Ég er svo ekki klár á því hvert framhaldið verður,“ segir Arnór en hann segir að liðið hafi verið fínt og allir mjög vinalegir. Arnór fór ásamt Sigurbergi Elíssyni liðsfélaga sínum hjá Keflavík til Noregs en liðið er að leita að ungum efnilegum leikmönnum í þær stöður sem þeir félagar leika í. Arnór hefur jafnan leikið sem miðjumaður sem tekur jafnan þátt í sóknar - og varnarleiknum en nú er hann í töluvert veigameira sóknarhlutverki en áður. Þar segist hann kunna vel við sig en hann fær að leika lausum hala fyrir aftan Guðmund Steinarsson framherja sem er eini leikmaður Keflavíkurliðsins sem skorað hefur fleiri mörk en Arnór í sumar.


Gæti Arnór hugsað sér að leika í norsku deildinni?
„Já en það má líka halda fleiri möguleikum opnum,  það gætu komið upp fleiri tækifæri,“ en Arnór segir að fyrir honum virðist það rökrétt að fara til Norðurlanda að spila og ef vel gengur þar þá væri það fínn stökkpallur á stærri vettvang. Fyrir hjá liðinu leikur Íslendingurinn Steinþór Freyr Þorsteinsson og svo Gilles Mbang Ondo sem lék lengi vel með Grindvíkingum. Liðið er búið að leysa Ondo undan samningi en Arnór tjáir blaðamanni það að aukakílóin hafi eitthvað verið að stríða framherjanum sem hampaði gullskónum á Íslandi árið 2010.


Arnór hefur vissulega vakið athygli í sumar en þessi 19 ára leikmaður hefur farið mikinn á miðjunni hjá Keflvíkingum á fyrri hluta tímabils. Arnór var m.a. valinn í undir 21 árs lið Íslands fyrr í sumar og á dögunum var hann valinn í 11 manna úrvalslið vefsíðunnar fótbolti.net. Í fyrra kom Arnór við sögu í 17 leikjum Keflvíkinga og komst þá einu sinni á blað. Einnig átti Arnór eftirminnilega innkomu í efstu deild árið 2010 þegar hann skoraði glæsilegt mark í fyrsta leik sínum í byrjunarliði Keflvíkinga 17 ára gamall.
Arnór sleit takkaskónum í Njarðvík en ákvað að færa sig yfir lækinn á eldra ári í 3. flokk. „Ég hef allt gott um Njarðvík að segja, það er mjög fínn klúbbur. Mér fannst framtíðin betri hjá Keflavík og sama ár og ég skipti yfir unnum við m.a. allt sem í boði var. Mig langaði að spila meðal þeirra bestu,“ segir Arnór um vistaskiptin. Njarðvíkingurinn er ekki alveg úr honum og hann viðurkennir að þegar liðin í Reykjanesbæ mætast í körfuboltanum þá styður hann jafnan þá grænklæddu.


Arnór virkar sem jarðbundinn og hógvær piltur og er ekki að gera mikið úr velgengni sinni. Hann segist bara leggja sig fram fyrir félagið og allt annað sé einfaldlega rjómi á kökuna. „Maður heldur bara áfram að gera það sem maður hefur verið að gera, það hlýtur að vera eitthvað sæmilega gott,“ segir Arnór að lokum en þar er hittir hann svo sannarlega naglann á höfðið.

Texti: Eyþór Sæmundsson