Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Arnór Ingvi: Erfitt að kveðja Keflvíkinga
Miðvikudagur 15. ágúst 2012 kl. 11:07

Arnór Ingvi: Erfitt að kveðja Keflvíkinga

„Mér líst ótrúlega vel á þetta og hlakka til að sýna hvað í mér býr,“ sagði Arnór Ingvi í samtali við Víkurfréttir.

Keflavík og Sandnes ULF hafa komist að samkomulagi um að knattspynumaðurinn efnilegi Arnór Ingvi Traustason verði lánaður til Sandnes frá og með 15 ágúst til 1. desember 2012. Sandnes hefur forkaupsrétt á Arnóri á meðan leigusamningurinn er í gildi. Arnór hefur því leikið sinn síðasta leik fyrir Keflvíkinga í Pepsi-deildinni þetta árið en hann heldur nú til Noregs.

„Mér líst ótrúlega vel á þetta og hlakka til að sýna hvað í mér býr,“ sagði Arnór Ingvi í samtali við Víkurfréttir. Arnór var að undirbúa sig undir brottför þegar blaðamaður náði tali af honum en hann heldur til Noregs síðar í dag. Arnór sagði að vissulega væri erfitt að kveðja Keflvíkinga á miðju tímabili en hann vonaðist til þess að liðið næði sínum markmiðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er vonandi að þeir haldi sínu róli en liðsfélagar mínir tóku vel í þessa ákvörðun mína og styðja við bakið á mér, alveg eins og góðir liðsfélagar eiga að gera,“ Arnór segir að hann hafi leitað ráða hjá leikmönnum sem hafa reynslu af því að spila á Norðurlöndum og Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði Keflvíkinga gaf honum m.a. góð ráð. Arnór sagði að hann hefði rætt málin með fjölskyldu sinni og þau séu full stuðnings og tilhlökkunnar yfir þessu tækifæri.

Hann segir Sandnes vera vel spilandi lið og allir leikmenn liðsins leggi sig fram um að spila góðan fótbolta. Tímabilið í Noregi er rétt hálfnað en Sandnes er þessa stundina í 14. sæti af 16 liðum í úrvalsdeild. Arnór vonast til þess að hjálpa liðinu en hann býst kannski ekki við því að ganga inn í byrjunarliðið.

„Maður fer ekkert beint í liðið en það er að sjálfsögðu stefnan,“ segir Arnór. Hann viðurkennir það að norskan sé ekki alveg hans sterkasta hlið en hann skilur hana ágætlega að eigin sögn. Arnór fær íbúð til umráða en hann býr svo vel að eiga skyldmenni og fólk sem getur verið honum innan handar í bænum.

Fjöldi fólk hefur sent honum hamingjuóskir og Arnór er afar þakklátur fyrir þær kveðjur. Það eru sannarlega spennandi tíma framundan hjá þessum unga leikmanni. „Þetta er gott tækifæri fyrir mig og ég er ánægður með þessa ákvörðun,“ sagði Arnór að lokum.

Knattspyrnudeild Keflvíkinga vildi nota tækifærið og óska Arnóri  alls hins besta og góðs gengis í Noregi.