Arnór Ingvi ætlar að nýta tækifærið
Keflvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason heldur til Svíþjóðar á næstu dögum og fer á reynslu hjá sænska liðinu Norköpping. Arnór Ingvi fer út þann 7. júlí og kemur heim nokkrum dögum síðar. Næsti leikur Keflavíkur er þann 14. júlí og missir Arnór ekki af leik vegna þessa.
„Ég er mjög spenntur og ætla að nýta þetta tækifæri. Þeir höfðu samband við mig og vildu fá mig á reynslu,“ segir Arnór sem er þó ekki á förum frá Keflavík. „Ég ætla að vera áfram hjá Keflavík og klára tímabilið. Ég er með samning við Keflavík út næsta tímabil. Ef ég stend mig vel og þeir vilja fá mig þá þurfa félögin að setjast niður og ná samkomulagi.“
Arnór segist þó ekkert vera farinn að hugsa um það að leika erlendis þó það sé draumurinn. „Alls ekki – ég tek bara eitt skref í einu. Það hefur verið draumurinn frá því að ég var lítill að komast í atvinnumennsku og það að fara á reynslu til Svíþjóðar er eitt skref í rétta átt.“
Arnór er tvítugur að aldri og hefur skorað þrjú mörk í sumar í 10 leikjum. Hann var á láni hjá norska liðinu Sandnes Ulf á síðustu leiktíð en sneri svo aftur til Keflavíkur og hefur leikið með liðinu það sem af er sumri.