Arnór Ingvi á leiðinni til Norrköping
Miðjumaðurinn farinn í atvinnumennsku
Samkvæmt heimildum Víkurfrétta flýgur Keflvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason til Svíþjóðar á mánudaginn til að skrifa undir samning við úrvalsdeildarliðið IFK Norrköping. Keflavík hefur náð samkomulagi við sænska liðið um kaupin á Arnóri sem var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar í sumar.
Áður hafði Arnór farið á reynslu til liðsins og leyst honum vel á aðstæður þá. „Þetta eru frábærar aðstæður og vel haldið utan um klúbbinn. Það hef ég heyrt og skynjaði það þegar ég var þarna úti,“ sagði Arnór í samtali við Víkurfréttir. Arnór var að sjálfsögðu í skýjunum og kvaðst hann vara ákafleg spenntur fyrir því að takast á við þetta verkefni.
Markmiðið að komast ennþá lengra
Arnór fór í fyrra til Noregs þar sem hann var á láni hjá Sandnes Ulf seinni hluta tímabils. Arnór sem er tvítugur segist núna vera betur í stakk búinn til þess að takast á við atvinnumennskuna og hann er sérstaklega spenntur fyrir sænska boltanum. „Ég tel þetta vera rétt skref á mínum ferli. Ég lít á þetta sem stökkpall þar sem markmiðið er að komast ennþá lengra,“ segir Arnór sem átti góðu gengi að fagna með U21 liði Íslands í ár, en þar var hann fastamaður.
Hann telur að reynslan í Noregi hafi gert honum gott og eins nýliðið tímabil með Keflavík þar sem hann lék afar vel. Það vel að hann var kjörinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar. Arnór er mjög metnaðarfullur og telur sig eiga nokkuð inni. „Svona á heildina litið þá var ég sáttur við sumarið. Mér fannst ég samt geta gert betur og hefði mig langað að fara ofar með Keflvíkingum. En ég er stoltur af þessari tilnefningu. Það eru margir sem stóðu við bakið á mér og þeim ber að þakka. Gunnar Einarsson einkaþjálfari á mikið í þessum árangri hjá mér, sem og liðsfélagarnir.“
Arnór er búinn að kynna sér staðarhætti í Norrköping og segir borgina vera fallega og alls ekki of stóra. Liðið sjálft er að ganga í gegnum nokkrar breytingar og einhverjir nýir leikmenn eru líklega að koma til liðsins. Spennandi verður að sjá hvernig miðjumanninum unga gengur að fóta sig í Svíþjóð en Arnór hefur alla burði til þess að ná langt.