Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Arnór Ingvi á heimleið
Myndir: Efri mynd af Arnóri í leik með Sandnes og á þeirri neðri er hann ásamt Njarðvíkingnum Óskari Haukssyni.
Sunnudagur 28. október 2012 kl. 10:03

Arnór Ingvi á heimleið

- Verður með Keflavík á næsta tímabili

Um miðjan ágúst hélt knattspyrnumaðurinn ungi og efnilegi Arnór Ingvi Traustason frá Keflavík til Noregs þar sem hann gekk til liðs Sandnes ULF sem leikur í efstu deild þar í landi. Hann fór til liðsins á lánssamningi en norska liðið á forkaupsrétt á Arnóri í lok tímabils. Nú eru fimm leikir eftir í norsku deildinni og Sandnes er í botnbaráttunni en næsti leikur liðsins ræður væntanlega miklu um framhaldið.

Arnór segir að hann viti ekki hvort félagið hyggist nýta sér forkaupsrétt á honum en hann er á því að koma aftur til Reykjanesbæjar og spila næsta tímabil með Keflvíkingum. „Mig langar að komast heim. Þessi lánssamningur bauð upp á það að kynnast þessu umhverfi og sjá hvort ég væri tilbúinn í þetta líf. Mér finnst ég ekki alveg vera tilbúinn og þarf að ég held að þroskast aðeins betur,“ segir Arnór en hann segist þó hafa lært mikið af veru sinni í Noregi og dvölin hefur styrkt hann andlega. „Ég hef ekkert á móti þessu liði eða neitt þannig, ég er þakklátur þjálfaranum sem hefur gefið mér tækifæri.“ Sem leikmaður er Arnór enn að bæta sig og hann hefur lært mikið í norska boltanum. „Hér er miklu meira tempó og boltinn hraðari en heima. Því meira sem tempóið því betri leikmaður verður þú. Ég hef þroskast aðeins og bætt mig sem leikmaður tel ég.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Margir ungir og efnilegir leikmenn grípa gjarnan tækifærið þegar boð um atvinnumennsku býðst en Arnór segir að líf atvinnumannsins sé ekki eintómur dans á rósum. „Þetta lítur alveg mjög vel út, að spila úti í atvinnumennskunni og vera einn í  íbúð og svona. Maður er samt að búa einn í fyrsta skipti, í öðru landi líka, það getur verið þreytandi og erfitt á köflum. Þetta getur tekið alveg svakalega á andlegu hliðina. Ég sakna fjölskyldunnar, vina og kærustunnar, og þess sem tengist mér sem er heima. En maður verður að hugsa þetta sem vinnu og sinna vinnunni sinni. En þetta er víst prófraun sem maður er að ganga í gegnum,“ segir Arnór en hann lítur ekki svo á að hann sé að gefast upp á þessu.

„Ég var auðvitað spenntur að stökkva á þetta þegar tilboðið kom. Mig langaði að prófa þetta. Samningurinn var líka þannig að ég gat séð hvort mér líkaði þetta eða ekki, það var því möguleiki á því að koma bara aftur heim. Ég er ekki samningsbundinn hér til lengri tíma.“ Arnór segir að hann viti þá að hverju hann gangi ef annað tækifæri gefst síðar.

Það eru því allar líkur á því að Arnór komi heim til Íslands í nóvember. „Ég vil vera heima og klára stúdentinn. Vera með fjölskyldu, vinum og kærustu og njóta þess að spila fótbolta með Keflavík. Svo verður stefnan sett aftur út.“

Óskar Hauksson, Njarðvíkingurinn knái sem leikið hefur með KR-ingum undanfarin ár gekk einnig til lið við félagið á dögunum og Arnór tók honum fagnandi. „Við vorum fínir félagar fyrir og erum ansi mikið saman hérna úti og bröllum ýmislegt. Það er ein æfing á dag en svo þarf maður að finna sér eitthvað að gera þess á milli. Arnór var kominn inn í byrjunarliðið en hann veiktist illa og missti sæti sitt. En nú er stefnan tekin aftur inn í byrjunarliðið og hann hyggst leggja hart að sér til þess að svo verði.