Arnór á skotskónum í sænsku úrvalsdeildinni
Arnór Ingvi Traustason skoraði tvö mörk og tryggði Norrköping mikilvægan 2:1 sigur í sænsku úrvalsdeildinni þegar liðið mætti Mjällby á útivelli í gær.
Fyrra markið skoraði Arnór eftir vítaspyrnu á 5. mínútu, markvörður Mjällby varði spyrnuna frá Arnóri en hann náði frákastinu og setti boltann í netið.
Seinna markið kom eftir að önnur vítaspyrna var dæmd á Mjällby. Aftur steig Arnór á vítapunktinn en í þetta sinn brást honum ekki bogalistinn og skoraði örugglega (74’).
Mjällby klóraði í bakkann í lok leiksins með marki þremur mínútum fyrir leikslok en lengra komust þeir ekki.
Norrköping og Mjällby voru jöfn að stigum fyrir leikinn í gær en með sigrinum færðist Norrköping upp í sjötta sæti deildarinnar með 22 stig eftir fimmtán umferðir. Kalmar og Hammarby eru jöfn Norrköping að stigum en með lakara markahlutfall.
Nokkuð er í efstu lið en Elfsborg situr á toppi deildarinnar með 36 stig, þar á eftir kemur Häcken með 35 stig, en hefur leikið einum leik fleiri, og í þriðja sæti er Malmö með 34 stig og á leik til góða.
Í spilaranum fyrir neðan fréttina má sjá mörkin sem Arnór skoraði í gær.