Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Árni Már sigraði í ljósmyndasamkeppni ÓL-fara
Miðvikudagur 12. nóvember 2008 kl. 11:23

Árni Már sigraði í ljósmyndasamkeppni ÓL-fara

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sundmaðurinn Árni Már Árnason úr ÍRB sigraði í ljósmyndasamkeppni Ólympíufaranna, sem ÍSÍ og Nýherji stóðu að meðal íslensku keppendanna á Ól í Peking í sumar. Myndin sem Árni Már tók er af  Jakobi Jóhanni Sveinssyni félaga hans í sundlandsliðinu. Dómnefndina skipuðu: Golli (Kjartan Þorbjörnsson) ljósmyndari á Morgunblaðinu og Halldór J. Garðarsson, vörustjóri Canon neytendavara hjá Nýherja. Í verðlaun hlaut Árni Már Canon EOS 450D myndavél með EF-S 18-55 3.5-5.6 linsu. Þorvaldur bróðir hans tók við verðlaununum þar sem Árni er við nám í Bandaríkjunum.

 

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) opnaði ásamt Nýherja í dag sýningu á ljósmyndum íslenska Ólympíuliðsins sem tóku þátt í leikunum í Kína í ágúst. Keppendur og aðstoðarfólk þess tóku myndir af því sem fyrir augu þess bar í Peking, þar sem leikarnir voru haldnir. Markmiðið var að fanga þá stemmningu sem var á leikunum og daglegt líf íbúa borgarinnar.  Fjölmargir keppendur og aðrir innan Ólympíuhópsins sendu myndir í keppnina, en þær er að finna á vef Nýherja.

Um verðlaunamyndina segir: "Kröftug mynd með flotta en um leið einfalda uppbyggingu. Sjónarhornið er skemmtilegt en um leið blekkjandi. Það tekur skoðandann smá stund að átta sig á því hvort myndin sé tekin úr sundlauginni, upp af bakka eða niður í laugina. Ólympíumerkið á upphandleggnum er síðan punkturinn yfir i-ið, flott staðsett í myndinni.

Ljósmyndasýningin verður opin í Café easy/Kaffiteríu ÍSÍ við Engjaveg 6 fram til áramóta.

Hér fyrir neðan má sjá verðlaunamynd Árna Más.