Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Arnar Freyr: Býst við hörku einvígi
Laugardagur 19. apríl 2008 kl. 10:25

Arnar Freyr: Býst við hörku einvígi

Bakvörðurinn Arnar Freyr Jónsson hefur verið að stýra leik Keflavíkurliðsins eins og herforingi að undanförnu og margan körfuknattleiksunnandann hefur hann glatt með skemmtilegum sendingum á samherja sína. Arnar býst við hörku einvígi gegn Snæfellingum og er hæstánægður með stuðninginn sem liðið hefur verið að fá að undanförnu.
 
,,Þetta leggst bara mjög vel í mig. Við ætlum að spila sömu vörn gegn Snæfell og við höfum verið að gera í síðustu leikjum gegn ÍR. Snæfell er með svipað lið og ÍR. Með leikstjórnanda sem er mikið með boltann og þetta verður bara eins með Justin Shouse og Nate Brown. Við tökum þá úr umferð. Annars býst ég við hörku einvígi rétt eins og hin tvö einvígin gegn þeim fyrir nokkrum árum í úrslitum,” sagði Arnar sem er hæstánægður með stuðningsmenn Keflavíkurliðsins.
 
,,Það hefur verið góð stemmning hjá okkur í síðustu leikjum og maður getur aldrei þakkað nægilega fyrir svona stuðning en t.d. oddaleikurinn gegn ÍR var ótrúlegur,” sagði Arnar enda var uppselt í Toyotahöllina svo það er ráð að mæta tímanlega í öll úrslitaeinvígin.
 
Arnar Freyr hefur fundið sig einkar vel í Keflavíkurliðinu undanfarið en hvað var það sem gerðist hjá honum?
 
,,Ég er bara að stíga upp á réttum tíma. Ég hef fengið að spila aðeins meira og er að leggja mig virkilega fram í vörninni svo er þetta svo gaman og þá detta inn hörkuleikir hjá manni,” sagði Arnar sem óðar verður betri af meiðslum sem eltu hann frá síðustu leiktíð inn í þessa.
 
,,Ég var að glíma við beinmar frá því í fyrra þar sem það blæddi inn á hné. Ég setti á mig einhver 10 kíló og gerði ekki neitt í sex mánuði. Nú er þetta allt að koma,” sagði Arnar en eru einhverjar fyrirmyndir að hans leik?
 
,,Mér finnst góð sending vera betri en góð karfa en hér áður fyrr var ég meira Iverson-aðdáandi en annað. Í dag fylgist ég vel með köppum á borð við Steve Nash og Jason Kidd,” sagði Arnar enda leikstjórnendur á heimsmælikvarða og því verðugir til þess að láta apa eftir sér eða taka til fyrirmyndar.
 
Keflavík-Snæfell
Leikur 1 – Úrslit
Toyotahöllin kl. 16:00 í dag.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024