Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Annar skellur hjá Grindavík í höfuðborginni
Miðvikudagur 14. maí 2008 kl. 22:09

Annar skellur hjá Grindavík í höfuðborginni

Grindavík mátti í kvöld þola 3-0 ósigur gegn Valsmönnum í annarri umferð Landsbankadeildar karla í knattspyrnu og hafa nú tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á Íslandsmótinu. Pálmi Rafn Pálmason var á skotskónum í kvöld og gerði öll þrjú mörk Valsmanna sem hafa rétt sinn hlut eftir 5-3 ósigur gegn Keflavík í fyrstu umferð. Annarri umferðinni lýkur á morgun, fimmtudag, þegar fimm leikir fara fram í deildinni.
 
Valsmenn voru ákveðnir í upphafi leiks og áttu nokkur þokkaleg færi en Grindvíkingar héldu sjó. Þegar líða tók á fyrri hálfleik hægðist töluvert á leiknum sem var nokkuð þunglamalegur á köflum. Jóhann Helgason átti ágætt skot í átt að Valsmarkinu á 30. mínútu en skotið fór fram hjá markinu hægra megin. Skömmu síðar fékk Zoran Stamenic gult spjald hjá Grindavík en næstu tíu mínútur eða svo voru þunnar á að sjá.
 
Loks dró til tíðinda á 42. mínútu þegar Bjarni Ólafur Eiríksson kom boltanum frá vinstri inn í teig á Pálma Rafn sem sendi knöttinn í netið og þannig stóðu leikar í hálfleik, 1-0 Valsmönnum í vil og líkast til flestir sáttir við að dapur fyrri hálfleikur væri að baki.
 
Gestirnir úr Grindavík voru frískir í upphafi síðari hálfleiks en maður leiksins, Pálmi Rafn, var ekki lengi að kveða niður góðan upphafskafla Grindavíkur þegar hann kom Íslandsmeisturunum í 2-0 á 57. mínútu.
 
Pálmi Rafn bætti við sínu öðru marki eftir samspil við Helga Sigurðsson með skoti úr teignum þar sem Magnús Þormar kom engum vörnum við í Grindavíkurmarkinu.
 
Eftir því sem lengra leið inn í leikinn var ljóst að hvorugt lið var sátt við dómgæsluna í kvöld og síður en svo Grindvíkingar sem kvörtuðu sáran. Þó staðan væri 2-0 mátti ekki mikinn mun sjá á Íslandsmeisturum Vals og nýliðum Grindavíkur en þriðja og síðasta mark leiksins kom eins og salt í sár Grindvíkinga á 91. mínútu leiksins. Pálmi Rafn var þá aftur á ferðinni og skallaði knöttinn í netið eftir fyrirgjöf frá varamanninum Baldri Þórólfssyni.
 
Lokatölur því 3-0 Valsmönnum í vil og hafa Grindvíkingar fengið á sig sex mörk og skorað eitt í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum þetta sumarið. Um þessar mundir virðist Scott Ramsay vera eini virkilegi sóknarbroddur liðsins og oft og tíðum er sem aðrir í gulu fylgist með honum leika listir sínar í von um að hann töfri eitthvað snilldarlegt fram úr hattinum í stað þess að taka sjálfir virkan þátt í sóknarleiknum.
 
Næsti leikur Grindavíkur í Landsbankadeildinni er mánudaginn 20. maí næstkomandi þegar þeir fá Fylki í heimsókn kl. 20:00 og verður leikurinn í beinni á Stöð 2 Sport.
 
VF-Mynd/ [email protected]Vonbrigðin leyna sér ekki hjá Michael Jónssyni en hann kom inn á sem varamaður á Laugardalsvöll í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024