Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Annar skellur hjá Grindavík
Föstudagur 19. ágúst 2005 kl. 01:30

Annar skellur hjá Grindavík

Óhætt er að segja að skin og skúrir skiptist á hjá liði UMFG í Landsbankadeild karla í knattspyrnu, en þeir töpuðu fyrir ÍBV, 5-1, á Hásteinsvelli í kvöld.

Grindvíkingar virtust hafa rétt úr kútnum eftir 8-0 hrakfarirnar gegn FH þegar þeir lögðu Fylki um síðustu helgi, 3-0, í langbesta leik þeirra í sumar. Annað kom þó á daginn því ÍBV var miklu betri aðilinn í leiknum og komst með sigrinum upp fyrir Grindvíkinga og sendi þá aftur í fallsætið.

Andri Ólafsson og Pétur Runólfsson komu Eyjapeyjum í 2-0 í fyrri hálfleik og Pétur Óskar Sigurðsson bætti því þriðja við í upphafi þess seinni. Steingrímur Jóhannesson setti það fjórða á 65. mínútu og var þá ljóst í hvað stefndi.

Robert Nistroj klóraði í bakkann fyrir gestina með marki á 76. mínútu, en Matthew Platt rak síðasta naglann í kistu Grindavíkur rétt fyrir leikslok.

Með tapinu færist falldraugurinn í aukana og nú mega þeir gulu hafa sig alla við til að halda sæti sínu á meðal þeirra bestu. Í síðustu fjórum leikjunum munu þeir mæta: KR(ú), Fram(h), Þrótti(ú) og Keflavík(h).
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024