Annar sigur Karenar Guðnadóttur í röð á Eimskipsmótaröðinni
Karen Guðnadóttir úr Golfklúbbi Suðurnesja gerði sér lítið fyrir og sigraði á öðru mótinu í röð á Eimskipsmótaröðinni í golfi en um síðustu helgi var keppt á síðasta móti ársins, Sequritas mótinu þar sem leikið var um GR bikarinn. Karen vann eftir æsispennandi keppni og var höggi betri en Berglind Björnsdóttir sem varð stigameistari ársins.
Karen lék hringina þrjá á 11 höggum yfir pari en fór á kostum á lokahringnum sem hún lék á pari. Hún fékk fjóra fugla á fyrstu átta holunum og náði svo forystu í mótinu þegar fimm holur voru eftir og hélt henni. Fyrir lokaholuna voru þær jafnar, Karen og Berglind en GS-konan tryggði sér sigur með því að fá par en Berglind fékk skolla. Vel gert hjá Karen sem hefur verið að bæta sig þegar liðið hefur á sumarið. Hún vann Hvaleyrarbikarin fyrir tveimur vikum, varð í 4. sæti á Íslandsmótinu í höggleik og vann svo núna lokamótið. Karen endaði í 2. sæti í stigakeppni Eimskipsmótaraðarinnar.
Golfkúbbur Suðurnesja átti tvo aðra keppendur í kvennaflokki en Laufey Jóna Jónsdóttir varð í 9. sæti á 27 yfir pari og Kinga Korpak sem rak lestina á 33 yfir pari en Kinga var langyngsti keppandinn í mótinu, aðeins 14 ára. Kinga kom gríðarlega á óvart þegar hún blandaði sér í toppbaráttuna á næsta síðasta mótinu á Hvaleyri þegar hún leiddi fyrir lokahringinn. Gekk hins vegar illa á lokahringnum og Karen kom sá og sigraði og fór m.a. holu í höggi í því mótinu eins og við sögðum frá nýlega.
Suðurnesjamenn áttu einn keppanda í karlaflokki en Guðmundur Rúnar Hallgrímsson úr GS varð í 13.-14. sæti á 7 yfir pari en hann endaði í 31. sæti í stigakeppni ársins. Guðmundur lék á mótaröðinni í sumar í fyrsta skipti í mörg ár og stóð sig vel þó hann hafi ekki náð í verðlaunasæti.