Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Annar og betri bragur á okkar leik
Föstudagur 11. janúar 2008 kl. 22:02

Annar og betri bragur á okkar leik

„Við ætlum okkur að halda toppsætinu og það var annar og betri bragur á okkar leik í kvöld en í síðasta leik en ekki nærri jafn gott og við viljum hafa það þar sem við náðum ekki að spila vel í 40 mínútur og áttum slæma kafla inn á milli,“ sagði Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur í samtali við Víkurfréttir eftir að hans menn lögðu Snæfellinga í miklum baráttuleik 98-95 í Sláturhúsinu. Með sigrinum eru Keflvíkingar að nýju komnir einir á topp deildarinnar með 22 stig. Liðin mætast svo að nýju á sunnudag í Stykkishólmi í 8-liða úrslitum Lýsingarbikarsins.

 

„Það er alltaf gaman að spila í Hólminum og þar er líf og fjör og ég trúi ekki öðru en að húsið verði fullt og rífandi stemmning. Við tökum bara einn leik í einu og ætlum okkur sigur í Hólminum,“ svaraði Sigurður aðspurður eftir sigurleikinn í kvöld hvort Keflvíkingar ætluðu sér báða stóru titlana í ár.

 

Grindvíkingar urðu fyrstir liða til að stöðva Keflvíkinga þessa leiktíðina en topplið Keflavíkur kom undir sig fótunum að nýju í kvöld með miklum seiglusigri. Hart var barist í leiknum og boltinn sem leikinn var af báðum liðum var ekki áferðarfallegur en Keflvíkingar tóku stigin tvö fegins hendi.

 

Gestirnir byrjuðu með látum og komust í 0-6 eftir þriggja stiga körfu frá Slobodan Subasic en Keflvíkingar létu það ekki á sig fá og jöfnuðu metin í 10-10. Bæði lið skiptu fljótlega yfir í svæðisvörn og umsvifalaust færðist meiri harka í leikinn sem bitnaði á gæðum boltans. Staðan að loknum 1. Leikhluta var 22-23 Snæfell í vil.

 

Heimamenn náðu yfirhöndinni í 2. leikhluta og komust í 30-25 þegar Tommy Johnson gerði 5 stig í röð fyrir Keflavík. Sóknarleikur gestanna var þunglamalegur en þeir misstu Keflvíkinga aldrei of langt frá sér. Snæfellingar voru duglegir að beita mismunandi varnarafbrigðum en ekkert eitt sérstakt kom Keflvíkingum í opna skjöldu og því var áfram nokkuð jafnt með liðunum.

 

Þegar skammt var til hálfleiks náðu Keflvíkingar að afreka fáheyrðan hlut, að leika sex stiga sókn. Brotið var á Magnúsi Gunnarssyni í þriggja stiga skoti og hann setti öll þrjú vítin niður. Bobby Walker stal svo boltanum eftir innkast hjá Snæfell, stökk upp að körfunni, skoraði og fékk vítaskot að auki sem hann skoraði úr. Liðin héldu því til hálfleiks í stöðunni 48-43 Keflavík í vil þar sem Tommy Johnson var með 15 stig fyrir Keflavík en þeir Justin Shouse og Slobodan Subasic voru báðir með 10 stig.

 

Þriðji leikhluti var skotsýning út í gegn þar sem Bobby Walker fór mikinn fyrir Keflavík. Hann setti niður fjóra þrista snemma í leikhlutanum og Keflavík komst í 65-52. Gestirnir svöruðu fyrir sig með tveimur góðum þristum frá Slobodan sem minnkaði þar muninn í 72-66. Leikhlutanum lauk svo í stöðunni 76-69 eftir glæsta lokakörfu Keflavíkur í leikhlutanum. Anthony Susnjara tók innkast fyrir Keflavík þegar tæpar 2 sekúndur voru til loka 3. leikhluta. Susnjara grýtti boltanum eftir endilöngum vellinum þar sem Sigurður Þorsteinsson tók við knettinum og lagði hann snyrtilega ofan í körfuna um leið og flautan gall.

 

Baráttan var Snæfells megin í 4. leiklhuta sem náðu að minnka muninn í 91-90 eftir þriggja stiga körfu frá Justin Shouse. Lengra komust gestirnir þó ekki og voru þeir sjálfum sér verstir á lokasekúndum leiksins. Staðan var 98-95 þegar Snæfell hélt í síðustu sóknina en þá missti Justin Shouse knöttinn aftur fyrir miðju og boltanum dæmt til Keflavíkur. Heimamenn gerðu ekki betur og misstu hann að nýju upp í hendurnar á Snæfellingum þar sem Ingvaldur Magni Hafsteinsson tók erfitt og slakt lokaskot sem hitti ekki á körfuna og sigur Keflavíkur í höfn.

 

Bobby Walker gerði 30 stig, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar fyrir Keflavík í kvöld og næstur honum var Tommy Johnson með 26 stig og 5 fráköst en saman gerðu þeir félagar Bobby og Tommy 10 þriggja stiga körfur í 20 tilraunum.

 

Hjá Snæfell var Justin Shouse allt í öllu með 28 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar en Slobodan Subasic gerði 19 stig.

 

Tölfræði leiksins

 

Gangur leiksins

0-6, 10-10, 22-23

30-25, 41-34, 48-43

54-46, 70-60, 76-69

80-74, 91-90, 98-95

 

VF-Myndir/ [email protected] - Efri mynd: Sigurður gaf sigri kvöldsins þumalinn upp enda tvö stig í hlut Keflavíkur. Neðri mynd: Arnar Freyr Jónsson, bakvörðurinn knái, brýtur sér leið upp að körfu Snæfellinga en Arnar var með 9 stoðsendingar í leiknum á 24 mínútum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024