Annar Íslandsmeistaratitill á árinu í höfn
María Tinna Hauksdóttir, 12 ára snót úr Njarðvík, varð nú síðastliðna helgi Íslandsmeistari í 10 dönsum í flokki unglinga 1 (12-13 ára) ásamt dansfélaga sínum Gylfa Má Hrafnssyni. Þetta er annar Íslandsmeistaratitill hennar á þessu ári en í janúar varð hún Íslandsmeistari í latin dönsum og bikarmeistari í ballroom dönsum.
Í febrúar keppti hún á Copenhagen open og dansaði sig þar inn í úrslit í bæði ballroom og latin dönsum og endaði þar í 5.sæti í báðum keppnum. Mikið er framundan hjá henni en hún fer nú um páskana að keppa á Evrópumóti WDC í Blackpool í Englandi og í beinu framhaldi keppir hún á British Open. Í lok apríl verður svo Íslandsmót í ballroom dönsum og bikarmót í latin dönsum.
Bróðir hennar, Kristófer Haukur Hauksson, ásamt dömu sinni Söru Dögg Ólafsdóttur, áttu einnig góða helgi en hann landaði 2. sætinu í DSI Open standard í fullorðins flokki. Þau voru einnig í 2. sæti á bikarmótinu í standard í janúar og eru í landsliði Íslands.