Annar desembersigur í Ljónagryfjunni
Brenton Birmingham fór fyrir Njarðvíkingum þegar þeir grænklæddu unnu enn einn desembersigurinn gegn Keflavík. Á svipuðum tíma í fyrra í Ljónagryfjunni lauk leik liðanna 104-84 Njarðvík í vil. Í kvöld var lokastaða leiksins 86-72 fyrir Njarðvík sem komust á toppinn með Skallagrím, KR og Snæfell fyrir vikið. Tim Ellis var eini leikmaðurinn í röðum Keflavíkur sem lét eitthvað að sér kveða en hann gerði 25 stig í leiknum en enginn annar leikmaður Keflavíkur gerði 10 stig eða meira í leiknum.
Magnús Gunnarsson opnaði leikinn að sínum hætti, með þriggja stiga körfu og stuðningsmenn Keflavíkur tóku undir af krafti. Keflvíkingar komust í 1-5 en Njarðvíkingar vöknuðu fljótt af værum blundi og breyttu stöðunni í 5-8 með þriggja stiga körfu frá manni leiksins, Brenton Birmingham. Tim Ellis dró vagninn hjá Keflavík en hann gerði 12 stig í fyrsta leikhlutanum sem lauk í stöðunni 22-20 Njarðvík í vil.
Í stöðunni 25-22 er brotið á Brenton í þriggja stiga skoti og hann hittir úr skotinu og vítinu sömu leiðis og staðan því 29-22. Strax í næstu sókn skora Keflvíkingar og í næstu Njarðvíkursókn er aftur brotið á Brenton í þriggja stiga skoti en hann hitti aðeins úr tveimur vítum og staðan orðin 31-24. Keflvíkingar ætluðu ekki að missa Njarðvíkinga fram úr sér og hinn ungi Þröstur Leó Jóhannsson kom sterkur inn og varði m.a. skot frá miðherjanum Friðriki Stefánssyni við mikinn fögnuð í stúkunni. Keflavík minnkaði muninn í 33-30 en eftir það fór að halla undan fæti.
Þegar 3:30 mín voru til hálfleiks braut Jón Hafsteinsson af sér og fékk villu fyrir vikið en mótmæli hans kostuðu hann aðra villu og af verra tagi, tæknivillu og þar með fékk hann sína fjórðu villu og hélt því á bekkinn. Þrátt fyrir mótvindinn héldu Keflvíkingar enn í við Njarðvík og staðan 47-40 þegar Njarðvíkingar ná varnarfrákasti og um sekúnda til hálfleiks þegar Gunnar Einarsson brýtur á Brenton sem freistaði þess að skjóta frá miðju. Fyrir vikið fékk Brenton enn einu sinni þrjú skot sem hann setti öll niður og staðan því 50-42 í hálfleik.
Brenton var enn stigahæstur Njarðvíkinga í hálfleik með 18 stig og Tim Ellis var með 17 hjá Keflavík. Jón N. Hafsteinsson var kominn með fjórar villur og Gunnar Einarsson með þrjár villur í liði Keflavíkur.
Keflvíkingar komu snemma út úr búningsklefanum en Njarðvíkingar tóku sér öllu lengri tíma. Skemmst er frá því að segja að yfirburðir Njarðvíkinga í þriðja leikhluta voru algerir. Sterk liðsvörn meinaði Keflvíkingum aðgangi að körfu Njarðvíkinga í flestum sóknartilburðum Keflavíkur og á skömmum tíma varð staðan 60-44 Njarðvík í vil og opnaði Friðrik Stefánsson það áhlaup með glæsilegri troðslu.
Um miðbik leikhlutans fékk Igor Beljanski sína þriðju villu en hann var að leika vel í kvöld og reyndist Njarðvíkingum sterkur undir körfunni á báðum endum vallarins. Þröstur Leó Jóhannsson lét áfram að sér kveða í liði Keflavíkur og barðist af krafti en Keflvíkingum tókst ekki að fylgja Þresti eftir í baráttunni og svo fór að Njarðvíkingar höfðu yfir að loknum þriðja leikhluta 70-51.
Keflvíkingar voru byrjaðir að bregða á það ráð að fara í svæðisvörn í síðar hálfleik og svo var áfram í fjórða leikhluta. Það hægði á leiknum en Njarðvíkingum tókst í flestum tilfellum að finna glufur á vörninni. Þegar tæpar sex mínútur voru til leiksloka má segja að Jeb Ivey hafi gert út um vonir Keflavíkur til að komast aftur inn í leikinn. Jeb setti þá niður þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 79-62.
Eftirleikurinn hjá Njarðvíki reyndis auðveldur og þeir fóru að lokum með 14 stiga sigur af hólmi 86-72. Brenton var sem fyrr segir stigahæstur hjá Njarðvíkingum með 26 stig en Jeb Ivey gerði 23. Hjá Keflavík gerði Tim Ellis 25 stig en aðrir leikmenn Keflavíkur, að Þresti frátöldum, hafa mátt muna sinn fífil fegurri.
VF-myndir/[email protected]