Annað B-liðið í röð sem Grindvíkingar senda út í kuldann
Bikarmeistarar Grindavíkur tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Lýsingarbikars karla í körfuknattleik með sigri á KR B 100-76. Vesturbæingar mega vera stoltir af frammistöðu sinni í kvöld en þeir létu Grindvíkinga hafa vel fyrir sigrinum. Ben Jacobson var sérstaklega ráðinn til liðs við KR B fyrir þennan leik og stóð piltur vel fyrir sínu með 33 stig í leiknum.
KR B er annað B-liðið í röð sem Grindavík slær út úr Lýsingarbikarnum en í 16-liða úrslitum mættust Grindavík og Keflavík B þar sem skærustu stjörnur Keflavíkur hér á árum áður mættu að nýju inn á parketið. Stilltu þá Keflavík B upp reffilegu byrjunarliði sem skipað var þeim Guðjóni Skúlasyni, Fal Harðarsyni, Jóni Kr. Gíslasyni, Alberti Óskarssyni og Sigurði Ingimundarsyni. Keflavík B átti einnig í fullu tré við Grindavík en rétt eins og Keflavík B varð KR B að sætta sig við úthaldsleysið í síðari hálfleik.
Gestirnir úr Vesturbænum höfðu yfir að loknum fyrsta leikhluta 23-25 þar sem Ben Jacobson gerði síðustu körfu leikhlutans en hann gerði 16 stig í fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta höfðu Grindvíkingar betri gætur á Ben og þá gerði hann aðeins tvö stig.
Staðan í hálfleik var 52-38 fyrir Grindavík og þá áttu KR B ekki afturkvæmt inn í leikinn þrátt fyrir fínar rispur. Munurinn var kominn upp í 20 stig að loknum þriðja leikhluta, 76-56, og urðu lokatölur leiksins 100-76 eins og áður greinir.
Nokkrir kappar stigu á stökk í röðum KR B í kvöld, Ingi Steinþórsson var við stjórnvölin en hann hefur m.a. þjálfað meistaraflokk KR og orðið með þeim Íslandsmeistari. Birgir Mikaelsson lét að sér kveða í nokkrum sóknum og Ólafur Ormsson lét nokkrar langdrægar skotflaugar flakka langt utan af velli eins og hann á að sér. Bræðurnir Jóhann og Lárus Árnasynir gerðu bakvörðum Grindavíkur lífið leitt endrum og sinnum og Guðmundur Magnússon, bróðir atvinnukörfuboltamannsins Helga Más Magnússonar, gerði stundum usla við körfuna.
Ben Jacobson var stigahæstur hjá KR B með 33 stig en Calvin Clemmons er allur að koma til í liði Grindavíkur og setti hann niður 20 stig í kvöld. Steven Thomas gerði 11 og Páll Axel Vilbergsson setti niður 10 stig.
Á morgun ræðst svo hvaða tvö lið tryggja sér síðustu sætin í undanúrslitum karla í Lýsingarbikarnum þegar ÍR tekur á móti Skallagrím og 1. deildarlið FSu fær Keflavík í heimsókn.
VF-mynd/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]