Anna María sæmd silfurmerki KKÍ
Annna María Sveinsdóttir, körfuboltakona úr Keflavík var sæmd silfurmerki Körfuknattleikssambands Íslands í hófi sem haldið var henni til heiðurs sl. sunnudag.Í hófið, sem kvennaráð körfuknattleiksdeildar Keflavíkur stóð fyrir í golfskálanum í Leiru mætti allt helsta körfuboltafólk Keflavíkur, gamlir samherjar og andstæðingar, forráðamenn Körfuknattleikssambands Íslands og fleiri. Sýndar voru tugir mynda á skjá frá ótrúlegum ferli Önnu Maríu en hún lék á fimmta hundrað leiki með Keflavík, skoraði á fimmta þúsund stig og afrekaði að ná fimmtíu landsleikjum, fyrst íslenskra kvenna. Mörg gullkorn féllu frá körfuboltafólki til Önnu Maríu við þetta tækifæri. Ólafur Rafnsson, formaður KKÍ, var einn þeirra sem talaði um feril körfuboltakonunnar og afhenti henni síðan silfurmerki sambandsins.