Anna María leikur sinn 300. leik í kvöld
Merkileg tímamót verða í kvöld á ferli körfuknattleikskonunnar Önnu Maríu Sveinsdóttur, en þá leikur hún sinn 300 leik í efstu deild.
Engin önnur kona hefur spilað jafnmarga leiki og Anna, en hún hefur staðið í stórræðum með Keflavík síðustu 19 árin. Samkvæmt grein Fréttablaðsins lék hún sinn fyrsta leik þann 6. október 1985. Hún hefur síðan unnið 22 Íslands- og bikarmeistaratitla með Keflavík og 14 minni titla.
Engin hefur skorað fleiri stig en hún í efstu deild kvenna, eða 4720, og hún hefur verið valin leikmaður ársins 6 sinnum og í lið ársins 10 sinnum. Þá hefur hún leikið 60 landsleiki, eða fleiri en nokkur önnur körfuboltakona.
„Ég hef nú lítið verið að spá í þetta,“ sagði Anna María þegar Víkurfréttir spurða hana hvort hún hefði stefnt að þessu lengi. „Ég tek bara einn vetur í einu og verð í þessu á meðan ég hef gaman af því að spila.“
Eftir að hafa unnið svo marga titla hljóta margir að velta því fyrir sér hvort það sé ekki leiðigjarnt til lengdar að lyfta bikurum, en Anna segir svo alls ekki vera. „Það hefur sennilega haldið mér við efnið í öll þessi ár að vinna svona mikið. Þetta er alltaf jafn gaman og er eiginlega orðið fíkn.“
„Eigum við ekki bara að segja að ég stefni á 400!“ segir Anna í gríni og hlær þegar hún er spurð út í framhaldið. Það er alls óráðið en hún hefur sýnt að hún á enn fullt erindi í boltann og er burðarásin í sterkasta liði landsins.
VF-mynd/Hilmar Bragi Bárðarson