Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Anna María hætt
Laugardagur 17. desember 2005 kl. 18:25

Anna María hætt

Körfuknattleikskonan Anna María Sveinsdóttir hefur ákveðið að hætta að spila með Íslandsmeisturunum og leggja skóna á hilluna.

Þá ákvörðun tekur hún í framhaldi af því að við hnéspeglun fyrir skömmu kom í ljós brjóskskemmdir í lærlegg sem erfitt yrði að vinna á.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun,“ sagði Anna María í samtali við Víkurfréttir í dag. „Ég fór yfir þetta og ákvað að þetta væri komið gott. Ég er samt tiltölulega sátt við að hætta. Það er varla annað hægt því ég hef unnið allt sem hægt er að vinna og aldrei meiðst fyrr en núna.“

Anna segist munu snúa sér að þjálfun á næstunni og mun verða meistaraflokknum og þjálfara þeirra innan handar þar sem eftir lifir vetrar. „Svo er aldrei að vita nema maður hætti alveg í þessu og reyni að sjá hvort það sé líf fyrir utan körfuboltann. Ég hef heyrt það frá mörgum sem hafa hætt, en nú verða ég að komast að því sjálf,“ segir Anna að lokum.

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, sagði missi af Önnu Maríu, en þrátt fyrir að einhverjar breytingar yrðu gerðar á leikskipulagi liðsins treysti hann þeim stelpum sem eftir eru til að standa sig vel, enda sé nóg eftir af tímabilinu.

Anna María vann til 12 Íslandsmeistaratitla á ferlinum og 11 bikartitla auk ótal annarra viðurkenninga. hún lék yfir 500 leiki með liðinu og á meðfylgjandi mynd er hún með málverk sem hún fékk að gjöf við það tilefni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024