Andy hættir hjá Keflvíkingum
Leit hafin að nýjum þjálfara karla- og kvennaliðs Keflavíkur í körfunni. Mikil vonbrigði með árangurinn í úrslitakeppninni.
Andy Johnston mun ekki þjálfa körfuknattleikslið Keflavíkur á næsta tímabili og er hafin leit að nýjum þjálfara eða þjálfurum fyrir karla- og kvennalið félagsins. Körfuknattleiksdeild Keflavíkur (KKDK) og Andy hafa komist að samkomulagi um hann verði leystur undan samningi sínum við Keflavík. Keflvíkingar voru að greina frá þessu á heimasíðu félagsins.
Í yfirlýsingu Keflvíkinga segir: „Samningurinn við Andy var til tveggja ára og voru miklar væntingar gerðar til beggja liða fyrir tímabilið. Segja má að gengið í deildinni hafi verið á pari við væntingar. Bæði lið duttu hins vegar út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, 3-0, og var það árangur sem bæði stjórn KKDK og Andy sjálfur gátu illa sætt sig við. Í kjölfarið hafði Andy Johnston samband við stjórn KKDK með þá ósk að vera leystur undan samningi þar sem hann vildi leyta á önnur mið í Bandaríkjunum auk þess sem hann vildi þakka fyrir það tækifæri sem honum hafði verið veitt af Keflavík. Var það mat stjórnar að það væri heillavænglegasti kosturinn að segja samningnum upp.
Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það hvort Andy klári tímabilið með unglingaflokkum félagsins en hann var tilbúinn að klára þau verkefni sem eftir voru á tímabilinu.
Að lokum vill Stjórn KKDK koma því á framfæri að það sem fram kemur í svokölluðu „Ruslatali“ á karfan.is á sér enga stoð í raunveruleikanum. Ekki verður skilið á hvaða vegferð Hörður Tulinius er með að bera slíkar gróusögur á torg. Erfitt er að sjá aðra ástæðu fyrir svona skrifum en að ala á slúðri og almennum leiðindum enda hafði umræddur aðili ekki einu sinni fyrir því fá staðfestingu á þessari „frétt“ frá neinum hjá stjórn KKDK.