Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Andri óeigingjarni
Fimmtudagur 28. júní 2007 kl. 19:00

Andri óeigingjarni

Óeigingirni myndi að öllum líkindum lýsa Andra Steini Birgissyni hvað best. Þessi skæði framherji hefur frá upphafi leiktíðar verið iðinn við að spila uppi samherja sína og nú er svo búið að hann hefur gefið 10 stoðsendingar í 1. deild karla í knattspyrnu. Grindvíkingar sitja réttilega á toppi 1. deildar og hafa verið að leika feikilega vel í sumar. Andri Steinn er á sínu öðru ári hjá Grindvíkingum en minnstu munaði að knattspyrnuferill kappans hefði verið á enda kominn þegar hann lenti í alvarlegu bílslysi á Englandi þegar hann var á mála hjá Notts County.

 

Grindvíkingar mæta Fjölni annað kvöld í 1. deildinni en Andri er uppalinn Fjölnismaður og hefur einu sinni áður veitt gamla félaginu rothögg en það var í leik með Víkingum gegn Fjölni. Hann stefnir að öðru rothöggi á morgun. „Það verður gaman að mæta þeim en þegar Siggi Jóns var að þjálfa Víking kom ég inn á sem varamaður gegn Fjölni og lagði upp sigurmarkið svo þeir eiga harma að hefna gegn mér. Fjölnir spilar fast en ég vona að Janko þjálfari hvíli mig ekki í leiknum af þeirri ástæðu að Fjölnir gæti tekið of fast á mér,” sagði Andri en hann segir að Grindavík viti vel af veikleikum Fjölnismanna. „Þeir eru sterkir frammi og í föstum leikatriðum en þeir eru ekki sterkir varnarlega séð og því munum við leggja áherslu á sterkan sóknarleik á morgun og ætlum okkur að ganga frá þeim,” sagði Andri ákveðinn. 

 

Andri Steinn er í fantaformi um þessar mundir en hefur ekki að fullu náð sér af meiðslum sem hann hlaut í bílslysi á Englandi fyrir nokkrum árum. „Ég lenti í bílslysinu skömmu áður en ég kom til Grindavíkur en þá var ég á mála hjá Notts County. Þetta var töluverður árekstur sem ég og Hannes Sigurðsson, sem þá var hjá Stoke, lentum í þar sem við ókum niður nokkur umferðaskilti og vorum heppnir að hafna ekki úti í skógi. Ef það hefði gerst værum við báðir líkast til enn í skóginum. Það hefur einhver verið vakandi yfir manni þarna,” sagði Andri sem enn fær smávægilega verki og óþægindi í skrokkinn tengda atvikinu en segist fá góða meðferð frá fagfólki í Grindavík.

 

Þrátt fyrir góða tilburði á vellinum telur Andri að enn sé rúm fyrir Grindvíkinga til að bæta sig. „Við erum rétt að byrja og við sem lið teljum okkur ekki enn hafa sýnt okkar bestu hliðar svo það er skýr stefna að vinna 1. deildina með glans. Við viljum ná fram betri bolta og halda áfram að vinna, það er það sem skiptir máli,” sagði Andri en ætlar hann ekkert að fara að skora meira sjálfur í stað þess að vera svona „góður” við samherja sína? „Að sjálfsögðu er það markmiðið að fara að skora meira, ég setti mér markmið fyrir leiktíðina að gera 10 mörk í sumar en þjálfarinn vill fá 15 mörk frá mér. Þó er það aðal málið að fara upp í Landsbankadeildina. Ég setti mér 10 marka markmið upp á djókið en þetta var markmið engu að síður,” sagði Andri sem jafnan er staðsettur milli miðju og sóknar og því líklegur ef áfram heldur sem horfir til að ná sínu persónulega markmiði í sumar.

 

[email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024