Andri Íþróttamaður Sandgerðisbæjar 2007
Hnefaleikamaðurinn ungi Andri Elvarsson braut blað í sögu Sandgerðisbæjar í gær er hann varð yngsti íþróttamaðurinn til þess að verða útnefndur Íþróttamaður Sandgerðisbæjar. Þá var Andri einnig fyrsti hnefaleikamaðurinn til þess að verða fyrir valinu en Andri er nemi í 7. bekk við Grunnskólann í Sandgerði og hefur tekið miklum framförum í hnefaleikum síðustu ár.
Athöfnin fór fram í Vörðunni við Miðnestorg 3 í Sandgerði í gærdag. Þeir Aron Örn Reynisson, knattspyrna, og Magnús Ríkharðsson, golf, voru einnig tilfnefndir en Andri hreppti hnossið.
Nemendur Tónlistarskólans í Sandgerði léku nokkur lög við athöfnina og þá voru íþróttamenn frá Sandgerði sem stunda íþróttir utan bæjarfélagsins einnig heiðraðir. Lilja Íris Gunnarsdóttir var heiðruð fyrir góðan árangur með knattspyrnuliði Keflavíkur og Sigríður Guðrún Jónsdóttir var heiðruð fyrir árangur sinn í pílukasti.
Andri æfir hnefaleika með Hnefaleikafélagi Reykjaness og þrátt fyrir ungan aldur er hann á meðal þeirra bestu í sínum þyngdarflokki. Allar viðureignir Andra á árinu 2007 voru gegn stærri, þyngri og eldri hnefaleikamönnum en Andri háði 11 bardaga á síðasta ári og hafði sigur í 9 þeirra.
VF-Mynd/ [email protected] - Andri Már Elvarsson er í miðjunni en honum á vinstri hönd er Aron Örn Reynisson og hægra megin við Andra er Magnús Ríkharðsson.