Andri Fannar er eftirsóttur af liðum í Pepsi-deildinni
Framherjinn ungi úr Njarðvík, Andri Fannar Freysson, er gríðarlega eftirsóttur hjá liðum úr Pepsi-deild karla eftir frábært sumar með Njarðvíkingum þar sem hann skoraði 17 mörk. Andri hefur æft með Breiðablik undanfarið og hefur um helmingurinn af liðum úr efstu deild sett sig í samband við Andra að undanförnu.
Andri upplýsti í viðtali við VF fyrr í sumar að hann stefndi á nám í Bandaríkjunum og þessa stundina er hann að íhuga tilboð frá háskóla í New York sem leikur í efstu deild og er að sögn Andra afar virtur skóli. „Þessi lið hérna heima vilja ekkert endilega semja við einhvern sem er að fara í nám erlendis innan árs, en mig langaði að æfa með þessum strákum og sjá hvort ég væri tilbúinn að færa mig í úrvalsdeildina, ég tel að svo sé,“ sagði Andri í samtali við VF en hann hefur einungis æft með Blikum eftir að tímabili lauk þó svo að mikið af liðum sækist eftir kröftum hans.
En Suðurnesjaliðin í Pepsi-deild, eru þau ekkert að hringja? „Annað þeirra hefur gert það, og það er ekki í Reykjanesbæ,“ segir Andri og bætir því við að hann sé opinn fyrir öllu þessa stundina.
Andri sagðist hafa marga möguleika í stöðunni og nú væri erfið ákvörðun fyrir höndum. „Hugsanlega gæti það freistað manns að vera hér heima og leika í efstu deild, en ég er bara þessa dagana að fara yfir þessi mál með fjölskyldunni og tek svo ákvörðun á næstu vikum. Þetta er vissulega erfið ákvörðun,“ sagði Andri að lokum.