Andlegi hlutinn þarf að smella saman
Ægir International sundmótið um helgina
Sundmótið Ægir International fer fram í innilauginni í Laugardal um helgina en mótið hefst í dag og stendur fram á sunnudag. Þetta er í fjórða sinn sem mótið er haldið í Laugardal en um 250 keppendur verða á mótinu. Flestir elstu sundmenn ÍRB munu taka þátt á mótinu og mun Erla Dögg Haraldsdóttir reyna við Ólympíulágmarkið í 200m fjórsundi. Steindór Gunnarsson yfirþjálfari ÍRB sagði í samtali við Víkurfréttir að enn mætti ekki afskrifa Ólympíumöguleika þeirra Birkis Más og Árna Más.
,,Þau Birkir, Árni og Erla munu öll reyna við lágmörkin fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í Eindhoven í Hollandi um páskana. ,,Erla er mjög nálægt því að ná Ólympíulágmarkinu og þá eiga strákarnir enn möguleika á því að komast til Peking ef þeir halda rétt á spilunum. Sterkasta grein Birkis er 200m skriðsund en Árni á fleiri valmöguleika þar sem gæti náð lágmörkunum í 100m bringusundi, styttri skriðsundunum og fjórsundinu svo það má alls ekki afskrifa þá strax,” sagði Steindór en hann býst við sterku móti í Laugardal um helgina.
,,Það hafa oft komið frægir sundmenn á Ægir International og helstu nöfnin að þessu sinni eru Alexander Dale Oen og bringu- og fjórsundskonana sterka Sara Nordenstam.”
Víkurfréttir náðu einnig tali af Erlu Dögg sem viðurkenndi að það yrði þægilegt að ná Ólympíulágmarkinu hér heima. ,,Það eru fleiri þættir sem koma inn í myndina ef maður er að reyna við Ólympíulágmarkið erlendis. Þá gistir maður á hótelum og þarf að fljúga og fleira sem getur komið upp á sem truflar einbeitinguna en því fyrr sem ég næ lágmarkginu því betra,” sagði Erla en þetta verður fyrsta tækifærið hennar á þessu ári til að tryggja sér farseðilinn til Peking.
,,Það verður þvílíkur léttir ef ég næ lágmarkinu um helgina því þá get ég strax farið að einbeita mér að Ólympíuleikunum sjálfum. Miðað við hvernig ég hef verið að synda undanfarið þá á ég alveg að geta náð þessu,” sagði Erla en hvað er það sem vantar upp á hjá henni til að ná lágmörkunum í fjórsundinu? ,,Flugsundið er fínt hjá mér en baksundið er verst, bringusundið og skriðsundið er einnig í fínu lagi en ég gæti farið aðeins hraðar í bringunni,” sagði Erla sem keppir í 50m flugsundi í dag, 200m fjórsundi á laugardag og 100m bringusundi á sunnudag.
Erla viðurkennir að töluvert álag fylgi því að reyna við Ólympíulágmörkin en ekki skal örvænta þar sem íslenskir sundmenn geta spreytt sig við lágmörkin fram í júní á þessu ári. ,,Þetta er aðallega andleg pressa, ég er búin að æfa vel og er fullfær um þetta líkamlega svo það er andlegi hlutinn hjá mér sem þarf að smella saman.”
Myndir: Efri mynd: Erla Dögg Haraldsdóttir, neðri mynd: Birkir Már Jónsson.