Ánægð í Grindavík
Bakvörðurinn knái Joanna Skiba hefur leikið fantavel með körfuknattleiksliði Grindavíkur í vetur en hún gekk í raðir hjá gulum og glöðum fyrir þessa leiktíð og hefur stjórnað leik Grindavíkurliðsins af mikilli röggsemi. Víkurfréttir náð af henni tali á dögunum þar sem við komumst að því að þessi knáa körfuknattleikskona er ánægð með lífið á Íslandi og vill miklu frekar vinna fyrir sér inni á parketinu heldur takast á við venjulegt starf frá 9-17.
,,Ég er fædd í Kraká í Póllandi en hef búið alla mína ævi í Providence á Long Island í Bandaríkjunum,” sagði Skiba en báðir foreldrar hennar eru frá Póllandi og sem ungt barn fluttist hún til Bandaríkjanna þar sem hún gekk í skóla á Rhode Island og útskrifaðist þar úr háskóla síðastliðinn maí. Skiba er með pólskt vegabréf og leikur því sem Evrópumaður í liði Grindavíkur en vinkona hennar Tiffany Roberson er miðherjinn og Bandaríkjamaðurinn hjá Grindavík. Saman hafa Skiba, Roberson og Grindavíkurstelpurnar gert Röstina í Grindavík að einum rammgerðsta heimavelli körfuboltans þessa leiktíðina.
,,Við Tiffany gerum fátt annað en æfa, spila og slaka á, þetta er auðvelt líf og mér líkar þetta fyrirkomulag mun betur en að vera að vinna frá 9-17,” sagði Skiba og skellti upp úr. ,,Lífið hér á Íslandi er nokkuð frábrugðið því sem maður á að venjast í Bandaríkjunum en hér í Grindavík eru allir mjög vingjarnlegir og hjálpfúsir svo ég kann mjög vel við mig hérna. Þetta hefur reyndar verið kaldur vetur hérna á Íslandi en ég er ekkert voðalega hrifin af kuldanum þó ég sé frá Póllandi, ég meira fyrir hlýja loftslagið,” sagði Skiba sem hefur gert 18,7 stig að meðaltali í leik fyrir Grindavík í vetur.
Skiba segist vera ósköp venjuleg, hafi gaman af kvikmyndum og verja tíma með vinum sínum. Þá segir hún sambúðina með Tiffany ganga vel. ,,Það var bara auðvelt fyrir okkur Tiffany að aðlagast hlutunum hér. Liðsfélagarnir eru frábærir og okkur Tiffany semur vel í sambúðinni,” sagði Skiba en þessir burðarársar Grindavíkurliðsins búa skammt frá Íþróttahúsinu svo þær eru duglegar að æfa.
Grindvíkingar hafa ekki tapað heimaleik í deildarkepninni síðan þann 7. nóvember 2007 þegar liðið lá 88-90 eftir framlengdan leik gegn Haukum. ,,Heimavöllurinn okkar er sterkur og okkur líkar að spila hérna og við ákváðum að ef við myndum tapa þá væri það ekki hér heima. Stelpurnar mæta vel á æfingarnar og leggja mikið á sig. Liðsfélagarnir eru duglegir að hjálpa hverjum öðrum svo þetta er að ganga vel,” sagði Skiba og viðurkenndi hlægjandi að það hefði vitaskuld verið eina vitið að leika til bikarúrslita í Grindavík.
Skiba hefur mikinn metnað sem körfuknattleiksmaður og langar að leika í stærstu deildunum. ,,Markmiðin mín eru samt að halda áfram að bæta mig og leggja á mig mikla vinnu og fara í alla leiki með Grindavík til að vinna. Ég gæti vel hugsað mér að leika í sterkari deildum en við sjáum hvaða tækifæri verða á boðstólunum. Ég er ánægð þar sem ég er núna og geri mér grein fyrir því að Ísland er fínn stökkpallur í sterkari deildir, sérstaklega ef okkur í Grindavík heldur áfram að ganga vel,” sagði Skiba að lokum.
Næsti leikur Grindavíkurkvenna er gegn Hamri á laugardag, svo mæta þær Fjölni, Val og Keflavík áður en kemur að stóru stundinni gegn Haukum í Laugardalshöll þann 24. febrúar.