Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

AMÍ: ÍRB þrefaldir meistarar
Þriðjudagur 27. júní 2006 kl. 10:33

AMÍ: ÍRB þrefaldir meistarar

Aldursflokkamót Íslands í sundi fór fram í Reykjanesbæ í síðustu viku þar sem sundsveit ÍRB varð AMÍ meistari í þriðja sinn á jafn mörgum árum. Alls voru um 300 krakkar alls staðar af landinu sem tóku þátt í mótinu en keppnin er fyrir 17 ára og yngri. Lokahóf mótsins fór svo fram í Stapa á sunnudagskvöld í mikilli stemmningu og leiddist ÍRB-liðum ekki að fagna titlinum á heimavelli.

ÍRB vann yfirburðasigur í mótinu en 377 stig skildu að ÍRB og Ægi sem hafnaði í 2. sæti mótsins. ÍRB lauk keppni með 1562 stig en Ægir hlaut 1185 stig. Í þriðja sæti var Sundfélag Akraness og SH í fjórða sæti.

Guðni Emilsson og Soffía Klemenzdóttir voru stigahæst í sínum aldursflokkum og fengu sérstök verðlaun fyrir það. Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Elfa Ingvadóttir og Soffía Klemenzdóttir voru valin í unglingalandslið Íslands sem keppir á Norðurlandameistaramóti ungmenna sem haldið verður í Svíþjóð helgina 8. - 9. júlí næstkomandi.

Eftirfarandi sundmenn voru valdir í yngstu æfingahópa SSÍ sem taka þátt í 3 verkefnum á næsta sundári: Lilja Ingimarsdóttir, Salóme Rós Guðmundsdóttir, Svandís þóra Sæmundsdóttir, María Halldórsdóttir, Soffía Klemenzdóttir, Rúnar Ingi Eðvarðsson, Hermann Bjarki Níelsson og Ingi Rúnar Árnason.

Framkvæmd mótsins heppnaðist vel í alla staði og var sunddeildum UMFN og Keflavíkur til mikils sóma.

Níu félagamet litu dagsins ljós á AMÍ hjá sundfólki ÍRB. Soffía Klemenzdóttir setti fimm ný Keflavíkurmet í 100m flugsundi í telpna- og stúlknaflokki og 200m fjórsundi, 400 fjórsundi, 100 skriðsundi og 100m flugsundi í telpnaflokki. Gunnar Örn Arnarson setti síðan fjögur ný Njarðvíkurmet í 200m fjórsundi, 200 flugsundi, 200m bringusundi og 400 fjórsundi í flokki drengja.

Stúlknasveit Ægis (15-17ára) lauk mótinu með hvelli, synti 4x100m skriðsund á 3:59,26mín. og bættu eigið met frá AMÍ 2005 um hvorki meira né minna en 3,78sek. Sveitina skipuðu þær Jóhanna Gerða Gústafsdóttir, Guðrún Vaka Steingrímsdóttir, Snæfríður Jóhannsdóttir og Auður Sif Jónsdóttir.

Sveit ÍRB í telpnaflokki 13-14ára synti 4x100m skriðsund á 4:12,78mín og bætti þar með met Skagastúlkna frá 2004 um 1,79sek. Sveitina skipuðu Elfa Ingvadóttir, Jóna Helena Bjarnadóttir, Svandís Þóra Sæmundsdóttir og Soffía Klemenzdóttir.

Hrafn Traustason ÍA setti nýtt unglingamet í 200m fjórsundi drengja 13-14ára. Hrafn synti á 2:18,53mín. og bætti met Gunnars Steinþórssonar UMFA frá því á AMÍ 1998.

Stúlknasveit (15-17ára) Ægis  setti unglingamet í 4x100m fjórsundi á tímanum 4:30,21mín. og bættu eigið met frá 2005 um 4/10 úr sekúndu. Sveitina skipuðu Guðrún Vaka Steingrímsdóttir, Jóhanna Gerða Gústafsdóttir, Auður Sif Jónsdóttir og Snæfríður Jóhannsdóttir.

Telpnasveit KR, 13-14ára setti meyjamet í 4x50m skriðsundi og synti á 1:56,27mín. og bætti met Skagatelpna frá 2004. Sveitina skipuðu Hrefna Leifsdóttir,  Arna Ægisdóttir, Helga Valgerður Gunnarsdóttir og Sif Pétursdóttir.

Meti Arnar Arnarsonar ógnað
Hrafn Traustason ÍA synti 400m fjórsund á 4:54,84mín og  var aðeins 4/100 úr sekúndu frá drengjameti (13-14 ára) Arnar Arnarsonar frá 1995

Einnig var höggvið nærri tveimur unglingametum að auki:

Í drengjaflokki (13-14 ára) synti Hrafn Traustason ÍA  á 2:28.13 mín í 200m bringusundi og var aðeins 0,07sek. frá meti Guðna Emilssonar frá 2003.

Í stúlknaflokki (15-17ára) synti boðsundssveit Ægis á 1:51,85mín. og voru aðeins 9/100 úr sekúndu frá meti ÍRB frá 2004.

 

VF-myndir/ [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024