Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

AMÍ hefst í dag
Fimmtudagur 22. júní 2006 kl. 11:42

AMÍ hefst í dag

Aldursflokkamót Íslands fer fram í Reykjanesbæ um helgina en mótið hefst á fimmtudag og verða keppendur í mótinu tæplega 300 talsins. Steindór Gunnarsson, yfirþjálfari ÍRB, segir sitt sundfólk klárt í slaginn og að ÍRB ætli að verja titilinn sem félagið hefur unnið á síðustu tveimur AMÍ mótum. Hann og Eðvarð Þór Eðvarðsson, þjálfarar ÍRB, hafa undirbúið lið ÍRB gaumgæfilega síðustu misseri en aldursflokkamótin eru fyrir keppendur 17 ára og yngri og jafnan stærsta mótið fyrir þennan aldursflokk ár hvert.

„Ég reikna með góðri keppni og við ætlum að vera á toppnum að loknu móti,“ sagði Steindór sem taldi að ÍRB yrði mjög sterkt í boðsundinu. „Við teflum einnig fram mjög góðum einstaklingum um helgina í öllum flokkum og það er hvergi komið að tómum kofanum hjá okkur,“ sagði Steindór en keppt verður í einstaklingsgreinum og boðsundi á mótinu sem fer fram í nýrri og glæsilegri innilaug í Sundmiðstöð Keflavíkur. Mótið hefst í dag kl. 17:00 en setningarathöfn mótsins fer fram kl. 16:50 þar sem Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, mun setja mótið.

Steindór var tiltölulega bjartsýnn fyrir mótið en taldi að það yrðu félögin Ægir, SH og ÍA sem myndu veita ÍRB hvað harðasta keppni. „Það er fyrst og fremst gaman að fá að halda mót af þessari stærðargráðu en við leggjum upp með að okkar fólk verði vel undirbúið fyrir mótið,“ sagði Steindór en ÍRB-liðar hafa æft tvisvar á dag síðustu tvær vikur. „Foreldrastarfið hjá okkur er gott og það verður passað vel upp á dagsformið hjá sundmönnum ÍRB alla helgina sagði Steindór að lokum. Eins og áður greinir hefst mótið á fimmtudag en síðasti keppnisdagurinn er sunnudagurinn 25. júní og lýkur með veglegu lokahófi í Stapa á sunnudagskvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024