Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Alsælir kylfingar í súpugolfmóti í desember
Atli slær í súpumótinu. VF-myndir/pket.
Miðvikudagur 7. desember 2016 kl. 06:00

Alsælir kylfingar í súpugolfmóti í desember

Þrjátíu og fimm áhugasamir kylfingar mættu í opið „súpumót“ Golfklúbbs Sandgerðis í blíðunni sl. sunnudagsmorgun. Sandgerðingurinn Sveinn H. Gíslason lék sannkallað sumargolf og sigraði með 28 punktum eftir 12 holur.

Þó svo það hafi ekki verið hægt að hefja leik fyrr en kl. 10.30 á sunnudagsmorgun vegna myrkurs var Kirkjubólsvöllur enn í nettum sumarbúningi, kannski aðeins gulari annars mjög fínn. Leikið var inn á sumarflatir og slegið af flestum sumarteigum. Svo spígsporuðu breitt brosandi kylfingar um völlinn eins og beljur að vori og voru að leika golf í 7-8 stiga hita og nánast logni. Dagsetningin var 4. des. Gat þetta verið?
Eftir hring var boðið upp á sveppasúpu að hætti Sandgerðinga. Eins og fyrr segir sigraði Sveinn en í 2. sæti var Stefán Arnbjörnsson á 24p. og þriðji var Grétar Agnarsson, líka með 24.

Atli Þór Karlsson, gjaldkeri GSG var ánægður með þátttökuna og sagði klúbbinn frægan fyrir vetrarmótin. Hann var líka ánægður með gang mál á nýafstöðu sumri. Þó klúbburinn væri lítill gengi reksturinn þar sem skuldir væru litlar og félagar áhugasamir og hjálpsamir. „Við viljum vera góður lítill klúbbur. Hér koma nokkrir kylfingar í öllum veðrum og leika golf allt árið og það er bara skemmtilegt,“ sagði Atli.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í súpumótinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024